154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2024.

2. mál
[15:43]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum nú atkvæði um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga ársins 2024. Þarna er um að ræða fjölmargar breytingar og þau lög sem verið er að breyta teljast vera 21 en gætu orðið fleiri ef fram komnar breytingartillögur verða samþykktar. Stóra málið í þessu eru þó þær breytingar sem verið er að gera á svokölluðum krónutölusköttum. Sem betur fer er ekki farin sú leið sem farin var í fyrra heldur er verið að fara aðra og hófsamari leið. Viðreisn telur hins vegar ekki rétt að leggja bara til flatar hækkanir heldur hefði mátt velta fyrir sér öðrum markmiðum á bak við hverja hækkun fyrir sig. Þá teljum við einnig að horfa hefði átt til verðbólgumarkmiða Seðlabankans þegar þessar hækkanir voru ákveðnar en því miður er ekki hægt að sjá að með fjárlagafrumvarpinu náist sá stöðugleiki sem heimilunum er svo nauðsynlegur.