154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða um 400 millj. kr. fjárframlag til SÁÁ. Um 100 einstaklingar sem haldnir eru fíknisjúkdómi deyja árlega, þar af eru tugir sem deyja á dauðabiðlistanum eftir því að komast í meðferð inni á sjúkrahúsinu Vogi. Í rauninni má segja að þetta sé lífsbjargarbreytingartillaga sem við erum að leggja hér fram. Við erum að reyna að viðurkenna vandann og gera það minnsta sem mögulegt er. Við erum að koma til móts við það sem SÁÁ segir að sé nauðsynlegt til þess að geta haldið úti rekstrinum sínum og bara á því formi sem sjúkrahúsið getur í rauninni uppfyllt af fullum krafti. Við munum því um leið í raun draga úr biðlistunum og hjálpa fólki til að komast í læknisþjónustu. Þegar þetta er svona ríflega það sem við erum að borga á einum degi í vexti af erlendum lántökum þá get ég bara ekki skilið hvernig við getum horft upp á það aðgerðalaust hvernig fólkið okkar deyr hérna unnvörpum úr dauðans alvörusjúkdómi án þess að gera neitt í því.