154. löggjafarþing — 49. fundur,  13. des. 2023.

fjáraukalög 2023.

481. mál
[17:29]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um að aðstoða hjálparsamtök í þeirri neyð sem ríkir núna í samfélaginu og aðstoða þau við það að gefa fólki að borða fyrir jólin. Af ofrausn á að leggja þeim níu hjálparsamtökum til 8 millj. kr. Gerið ykkur grein fyrir því, hv. þingmenn, að við erum að greiða ríflega 13 milljónir hvern einasta klukkutíma, 24 klukkustundir á sólarhring allan ársins hring, í vexti af erlendri lántöku? Allar þessar breytingartillögur sem eingöngu eru að koma til móts við það fátæka fólk og fólkið okkar sem á bágast í samfélaginu kosta á pari við tveggja daga greiðslu ríkisins af lántökum sínum í vexti, hugsið ykkur. Það er með hreinum ólíkindum ef hjartað okkar er svona, hreinlega bara úr stáli. Ég veit ekki eiginlega til hvers við sitjum hér ef það er ekki til þess að mismuna ekki þegnunum og reyna að taka utan um alla þá sem á þurfa að halda.