154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands fyrir árin 2024--2028.

484. mál
[14:41]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Hér er ákveðin tímamótaþingsályktunartillaga að fara í gegnum þingið. Það er nefnilega þannig að hingað til höfum við Íslendingar alls ekki staðið okkur í því að ná því markmiði sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fyrir iðnríki um að veita 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu til þróunarsamvinnu. Í dag erum við einungis hálfdrættingar og erum í kringum 0,35% en með þessari þingsályktunartillögu eru stigin fyrstu skrefin í að hækka þessa prósentu jafnt og þétt upp í 0,7%. Ef sú hækkun sem lögð er til á því tímabili sem þessi þingsályktunartillaga nær til, til 2028, þá verðum við komin upp í 0,46% og ef við höldum áfram með svipaða árlega hækkun þá munum við ná þessu 0,7% markmiði árið 2035.

Það er einnig mjög mikilvægt skref stigið hér í að tryggja að 0,15–0,2% af vergri þjóðarframleiðslu fari til fátækustu ríkjanna. Það er nefnilega þannig að við megum ekki bara horfa á neyðina sem er okkur næst eins og Úkraínu. Við verðum að halda áfram að styðja við fátækustu löndin í heiminum.

Þar að auki langaði mig að nefna tvo aðra hluti sem eru hér. Það er í fyrsta lagi það að verið er að leggja til að áfram verði veitt framlög til verkefna á vegum félagasamtaka og að unnið verði að því að efla þetta starf og styðja það enn frekar. Það er nefnilega þannig að við Íslendingar erum með meira af okkar fé sem fer í gegnum tvíhliða samstarf heldur en í gegnum félagasamtök og aftur erum við hálfdrættingar á við kollega okkar annars staðar á Norðurlöndum sem setja miklu meira í gegnum félagasamtök. Frjálsu félagasamtökin hafa þann kost að þau vinna miklu nánar með fólkinu í löndunum sem verið er að styðja og er því mikilvægt að þetta sé aukið.

Mig langaði líka að nefna að hér er sérstaklega tekið fram að samstarf við fræðasamfélagið verði eflt og það sé gert bæði á því sviði að hér sé boðið upp á aukið nám og fjármagn til rannsókna til handa fræðasamfélaginu þegar kemur að þróunarsamvinnu og einnig að efla samstarf milli Háskóla Íslands og háskóla í þeim löndum þar sem tvíhliða samstarf er. Þetta er mikilvægt skref því að við þekkjum það öll að grunnurinn að öllu góðu starfi byrjar jú hjá fræðasamfélaginu.

Að lokum er lögð áhersla á að upplýsingagjöf og fræðsla um þátttöku Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og mannúðarstarfi verði aukin. Þetta er nokkuð sem var mjög virkt hér áður fyrr en hefur dalað svolítið undanfarin ár og ánægjulegt að sjá að því sé haldið áfram.

Að lokum langar mig að taka undir það sem hv. þm. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir nefndi hér á undan, að það hefur verið mjög þverpólitískt samstarf um þessa stefnu. Hún hefur verið unnin í nánu samstarfi við aðra aðila, bæði innan fræðasamfélagsins, innan frjálsra félagasamtaka og annarra sem koma að þróunarsamvinnu og það var hlustað á þennan hóp. Það er ekki alltaf, því miður, sem það er hlustað á fyrstu stigum svona mála á alla þá sem þessu tengjast. Það var ánægjulegt að sjá að það var hlustað á og tekið tillit til þeirra hugmynda sem hér komu fram. Ég sit sem fulltrúi Pírata í þróunarsamvinnunefnd og þróunarsamvinnunefndin skilaði frá sér einróma ályktun um tillögur að drögum að þessari stefnu og hæstv. utanríkisráðherra á skilið mikið lof fyrir það að hafa einmitt hlustað á þær tillögur sem komu þar. Tel ég að það sé til fyrirmyndar og eitthvað sem við gætum svo sannarlega gert í fleiri málum hér á Alþingi.

Að lokum langar mig bara að hvetja alla hv. þingmenn til að styðja þessa þingsályktunartillögu til samþykktar.