154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:12]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni og formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir framsöguna og vil byrja á að taka undir það sem kemur fram í nefndarálitinu og hún kom inn á í ræðu sinni, mikilvægi þess að stofnanir líkt og Íslandsstofa og Rannís eigi verkefnabundið samstarf við samstarfsaðila í öllum landshlutum og einnig að það sé gríðarlega mikilvægt að fram fari greining á jöfnum tækifærum í nýsköpunarverkefnum og fjármögnun þeirra á landsbyggðinni samhliða öðrum verkefnum. Mig langar að spyrja hv. þingmann um listir og það sem kemur fram í nefndarálitinu um mikilvægi þess að STEAM-aðferðafræði og aukin þverfagleg nálgun milli námsleiða veiti aukin tækifæri til að efla nám í listum og skapandi greinum hér á landi. Svo er talað í nefndarálitinu um átak í STEAM-kennsluaðferðum. Ég tek undir umsögn Listaháskóla Íslands að listirnar eigi að hafa ótvírætt vægi í sjálfu sér en séu ekki einungis hugsaðar sem verkfæri í STEAM þar sem vísað er til þess að nota aðferðafræði lista í kennslu í raungreinum.

Ég vek athygli á því að meiri hlutinn styður tillöguna óbreytta og er ekki með breytingartillögu í nefndaráliti um að hugtakið listir, orðið listir, sé sett inn í tillöguna eins og Listaháskólinn kom inn á. Hvernig stóð á því? Var einhver ástæða fyrir því? Var talið nægja að hafa A-ið í STEAM, það væri nægjanlegt til þess að efla vægi lista eða, eins og kemur fram í nefndaráliti, með leyfi forseta, að það „veiti aukin tækifæri til að efla nám í listum og skapandi greinum hér á landi“? Hefði ekki þurft að koma betur inn á hugtakið listir í sjálfri tillögunni?