154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[15:20]
Horfa

Dagbjört Hákonardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar fyrir ágæta yfirferð á efni þingsályktunartillögunnar hér í dag. Það er auðvitað margt um þessa að mörgu leyti metnaðarfullu áætlun að segja og ég geymi það fyrir ræðu mína hér á eftir sem framsögumaður 2. minni hluta. Í andsvari finnst mér ágætt að koma inn á þá augljósu staðreynd og fá þá svör frá hv. þingmanni um það í fyrsta lagi hvernig þessi allsherjarefling eigi að koma þekkingarsamfélaginu öllu til góða — þá er ég að tala um þekkingarsamfélag sem hlýtur að vera á öllum menntastigum þessa þjóðfélags, vegna þess að ég er þeirrar einkennilegu skoðunar sem háskólamenntuð kona að öll menntastig séu í eðli sínu jafn merkileg, hvort sem það er leikskólinn, grunnskólinn eða framhaldsskólinn og þá er ég auðvitað að tala um bæði bóknámsskóla, tækniskóla og iðnskóla — og hvernig henni finnist þessi tillaga endurspegla þær áherslur og að það sé mikilvægt, ef við á, og vilji sé til þess að efla þekkingarsamfélagið í heild sinni hjá þessari ríkisstjórn. Hvernig ætlum við að stemma stigu öðruvísi við þeirri þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum misserum og árum í t.d. grunnmenntun á Íslandi? Við sjáum ógnvænlega þróun í grunnskólum þessa lands. Eins og þessi þingsályktunartillaga lítur út lýtur hún að því að efla háskóla- og vísindastarf, nýsköpun, fullorðna fólkið sem býr til peninga, þar sem hjól atvinnulífsins snúast. En þau sem byggja grunninn að þessari verðmætasköpun, unga kynslóðin, hvernig fær hún að njóta góðs af því?