154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get bara tekið dæmi um sjálfan mig. Ég prófaði nokkur fög áður en ég fór í lögfræði og get sagt að ástríða mín hafi þá væntanlega staðið til þess. En ég prófað annað áður. Mín skoðun er sú að við séum allt of fáa nemendur í þessum STEM-greinum, að það sé mikilvægt að efla þær og fá nemendur til að fara í þær. Ég tel fráleitt á Íslandi að við séum með fjóra lagaskóla eins og við höfum verið með. Ég botna bara ekki í því. Ég hef verið að tala um þetta erlendis og fólk hristir bara hausinn, að 400.000 manna samfélag skuli vera með fjóra lagaskóla. Hvernig getum við mannað allar prófessorsstöðurnar t.d.?

Mig langar að spyrja hv. þingmann, af því að það stendur í nefndaráliti 2. minni hluta, með leyfi forseta: „Bent er á að skilgreina þurfi notkun á STEAM mun betur og að tryggja verði að bókstafurinn A nái einnig til hug- og félagsvísinda.“ — Það er væntanlega verið að vísa til orðanna „liberal arts“ en ég hef skilið A-ið sem listir en ekki hug- og félagsvísindi. Það væri ágætt að fá frekari rökstuðning hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar.

Annað sem ég tel mjög mikilvægt — og ég tel að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fólk velji að læra þau fög sem hugur þess stendur til eða ástríða — er að ég tel að ástæðan fyrir því að við erum með fjóra lagaskóla sé ekki að það séu ástríðufullir laganemar úti um allar koppagrundir í samfélaginu. Það er af því að þetta er ódýrasta námið. Og ég tel að við eigum að setja meiri pening í STEM-greinarnar.

Tengt þessu þá er talað um rannsóknarhlutverk háskóla, að það verði aukið, sem er mikilvægt og ég tek undir það. Það er leitt að sjá að fé til grunnrannsókna er að minnka. En hefði ekki verið rétt og er ekki rétt að við sættum okkur við það í litlu samfélagi að við höfum einn rannsóknarháskóla sem er Háskóli Íslands og svo höfum við aðra kennsluháskóla? (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu getur einstaklingur farið í rannsóknarverkefni, í mastersritgerð sína eða hvað sem það er, en að við (Forseti hringir.) einbeitum okkur að því að hafa einn stóran rannsóknarháskóla — hvort það sé ekki rétt leið.