154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[17:16]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hér örstutt til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025. Ég vil þakka þá umfjöllun sem hér hefur farið fram í dag en ég er jafnframt ein af þeim sem skrifa undir nefndarálitið sem hér liggur frammi.

Það eru bara nokkur atriði sem mig langar að hnykkja á í nefndarálitinu og sérstaklega atriði sem snúa að þátttöku landsbyggðanna í þekkingarsamfélaginu á Íslandi. Það er auðvitað margt sem þarf að koma til eins og farið var yfir hér í fyrri ræðu um fjarskipti, en það sem mig langar að leggja áherslu á er aukið aðgengi að fjarnámi, eins og fram kemur í nefndaráliti, að það þarf að auka aðgang að fjarnámi í ólíkum fögum. Það er leið til að jafna aðgengi, ekki bara íbúa á landsbyggðinni heldur ýmissa annarra hópa. Aðgengi að fjarnámi á háskólastigi er bæði mikilvægt fyrir grunnmenntun og símenntun.

Svo vil ég líka leggja áherslu á að auk þess sem það er mikilvægt að auka aðgengið þá þarf að efla fjarnámið. Það þarf miklu betri upplýsingar um framboð á fjarnámi og það þarf að efla stuðningsnetið og stuðningskerfið sem er til allt í kringum landið í gegnum símenntunarmiðstöðvarnar. Það eru samfélög háskólanema í námsverum um land allt og þau samfélög eru mikilvæg og þau þarf að styðja við áfram. Eins og hér hefur líka komið fram í nokkrum ræðum þá eru háskólasamfélög mikilvæg fyrir þá sem eru að stunda nám á hverjum tíma.

En ég ætlaði líka að draga fram að þessi háskólasamfélög, símenntunarmiðstöðvar og þekkingarsetur eru líka mjög mikilvæg í aðgangi að rannsóknaþætti þekkingarsamfélagsins og ég vil tengja það við svar sem ég var að fá frá hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í dag við fyrirspurn um skattfrádrátt vegna rannsókna og þróunar. Þar birtist bara hrópandi misvægi milli landshluta, milli landsbyggðar og höfuðborgar. Þannig að ef landsbyggðin á að vera þátttakandi í þekkingarsamfélaginu á Íslandi verður að vinna markvisst að því.

Síðan vil ég koma örstutt inn á annað atriði en það er efling og mikilvægi þess að það sé ákveðinn grunnur í atvinnuráðgjöf og markaðssetningu landshlutanna í hverjum landshluta því að öðruvísi verða ekki til samstarfsverkefni við stofnanir eins og Rannís og Íslandsstofu. Þess vegna er þessi grunnur á landsbyggðinni svo afskaplega mikilvægur og einmitt fyrir það fólk sem hér hefur verið nefnt líka í dag sem er ekki endilega inni í háskólunum heldur þarf atvinnuráðgjöfin að vera til staðar fyrir fólk sem svona ákveðið hlið að rannsóknastoðkerfinu, þessu opinbera stoðkerfi.

Fleira var það ekki sem ég ætlaði að draga fram hér þó að það væri vissulega ástæða til að ræða ýmislegt í þessari ályktun.