154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

vopnalög.

349. mál
[17:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S):

Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998. Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á vopnalögum þannig að ekki verði lengur veittar undanþágur frá banni við innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum á grundvelli þess að um safnvopn sé að ræða. Þá verði reglum um skráningar skotvopna breytt þannig að ávallt sé tryggt að skráður verði eigandi eða ábyrgðarmaður hvers vopns. Jafnframt er lagt til að skotvopn verði geymd í sérútbúnum skáp, sem og að ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/555 um eftirlit með öflun og eign vopna verði innleidd í íslenskan rétt á grundvelli Schengen-samstarfsins.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og allmargar umsagnir bárust um það. Þá barst minnisblað frá dómsmálaráðuneytinu og fyrir þessu er gerð nánari grein í nefndaráliti sem liggur frammi og er aðgengilegt á netinu.

Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar vill meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar árétta sérstaklega að með frumvarpinu og einkum með því að afnema undanþágur frá banni við innflutningi á hálfsjálfvirkum og sjálfvirkum skotvopnum er ætlunin m.a. að bregðast við ábendingum sem fram komu í áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2019 um skipulagða brotastarfsemi á Íslandi og ábendingum í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 um mikla aukningu á innflutningi slíkra skotvopna á árunum 2018–2021 með vísan til þess að um safnvopn sé að ræða.

Að mati meiri hlutans eru því með frumvarpinu lagðar til ýmsar nauðsynlegar og tímabærar breytingar á III. kafla vopnalaga um meðferð skotvopna og skotfæra í því skyni að takmarka innflutning slíkra vopna, auk þess sem nauðsynlegt er að lögfesta ákvæði tilskipunar (ESB) 2021/555 til að standast skuldbindingar samkvæmt Schengen-samningnum. Þá stendur til að endurskoða vopnalögin í heild sinni á næstu misserum en fram að því er nauðsynlegt að gera ákveðnar afmarkaðar breytingar á lögunum í þeim tilgangi að gera regluverki skýrara og færa það til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar.

Nefndin fjallaði nokkuð um ákvæði 2. mgr. 13. gr. vopnalaga sem er að finna óbreytt í 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Nokkrir umsagnaraðilar gagnrýndu þetta ákvæði í umsögnum sínum og þá einkum upptalningu í síðari málslið þeirrar málsgreinar þar sem tilteknir brotaflokkar eru taldir upp en hafi menn gerst brotlegir við þá og refsing farið fram úr sektum eða fangelsi í allt að sex mánuði kemur það í veg fyrir að lögreglustjóra sé heimilt að veita umsækjanda skotvopnaleyfi eða endurnýja það. Fundið er að því í umsögnum að ákvæðið sé of strangt og komi í veg fyrir að menn sem fyrir löngu hafi bætt ráð sitt geti fengið útgefið eða endurnýjað skotvopnaleyfi.

Meiri hlutinn bendir á, líkt og kemur fram í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins, að með frumvarpinu sé eingöngu verið að færa ákvæðið til í lögunum, úr 13. gr. í 12. gr. laganna, en ekki séu gerðar neinar efnislegar breytingar á því. Að mati meiri hlutans er þetta atriði sem rétt þykir að bíði heildarendurskoðunar vopnalaga og beinir því til ráðuneytisins að taka mið af framangreindum athugasemdum við fyrirhugaða endurskoðun laganna.

Þá komu jafnframt fram ábendingar fyrir nefndinni um að skilgreiningar skorti í frumvarpi á því hvað flokkist sem nauðsynlegir íhlutir skotvopna. Sumir íhlutir séu það smáir að erfitt sé að merkja þá. Um þetta bendir meiri hlutinn á að ítarlega skilgreiningu á því hvað teljist vera nauðsynlegir íhlutir skotvopna sé að finna í 1. gr. frumvarpsins og þykir sú skilgreining fullnægjandi að mati meiri hlutans. Jafnframt er vakin athygli á því að í c-lið 5. gr. frumvarpsins, sem og í skýringum við ákvæðið í greinargerð, kemur fram að sé nauðsynlegur íhlutur of smár til að merkja hann í samræmi við það sem þar greinir skuli hann a.m.k. merktur með raðnúmeri, stafakóða eða stafrænum kóða.

Nefndin fjallaði einnig um útgáfu, endurnýjun og afturköllun skotvopna leyfa og um það skilyrði að vera andlega heilbrigður og að öðru leyti hæfur til að fara með slík vopn, samanber c-lið 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins. Líkt og fram kemur í skýringum við 10. gr. frumvarpsins er með c-lið ákvæðisins bætt við heimild fyrir lögreglustjóra til að líta til brotaferils samkvæmt sakaskrá við mat á því hvort einstaklingur teljist vera til þess hæfur að fara með skotvopn. Einnig er heimilt að kanna málaskrá lögreglu sem geti verið mikilvægt í ákveðnum tilvikum þar sem nauðsynlegt getur reynst að kalla eftir læknisvottorði til að kanna nánar hæfi einstaklings til að fara með skotvopn.

Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að beina því til ráðuneytisins að kanna við endurskoðun laganna hvort tilefni sé til þess að ráðherra mæli nánar fyrir um þau atriði í reglugerð sem koma eigi fram í læknisvottorði sem fylgja skal með umsókn um skotvopnaleyfi.

Varðandi afturköllun skotvopnaleyfa þá kemur fram í 34. gr. núgildandi vopnalaga að leyfisveitandi geti hvenær sem er afturkallað leyfi samkvæmt lögunum, , svo sem ef ekki teljast lengur vera fyrir hendi nauðsynleg skilyrði fyrir því eða hafi leyfishafi ekki farið að settum fyrirmælum. Með frumvarpinu er lagt til í 1. mgr. 25. gr. að í stað orðsins „leyfisveitandi“ komi orðið „lögreglustjóri“. Í skýringum við greinina segir að það sé gert í þeim tilgangi að ekki aðeins sá lögreglustjóri sem hafi veitt leyfið geti afturkallað það heldur verði hægt að afturkalla leyfi óháð því hvar það var veitt.

Í minnisblaði sínu áréttar dómsmálaráðuneytið að með frumvarpinu hafi verið ákveðið að breyta núgildandi fyrirkomulagi þannig að hægt sé að taka mál er varði afturköllun skotvopnaleyfa fyrir hjá hvaða lögregluembætti sem er en með því móti mætti til að mynda beina umsóknum um skotvopnaleyfi og afturköllun þeirra til stærri embætta, eins og gert hefði verið varðandi leyfisveitingar, þar sem meiri reynsla og þekking væri fyrir á málaflokknum. Meiri hlutinn telur mikilvægt að hægt verði að taka fyrir bæði umsóknir um skotvopnaleyfi og afturköllun þeirra með bæði skjótum og skilvirkum hætti og að ákveðinn sveigjanleiki sé fyrir hendi í kerfinu hvað slíkar leyfisveitingar og afturkallanir varðar. Að mati meiri hlutans er þessi breyting því til bóta.

Þá er með 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins lagt til að ráðherra setji í reglugerð ákvæði um hvað teljist vera viðurkennt skotfélag og nánari skilyrði um m.a. stjórn, ábyrgð og meðlimi slíkra félaga. Fyrir nefndinni var fjallað um það hvort slík skilyrði kynnu að varða 74. gr. stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Meiri hlutinn bendir á að viðurkenndum skotfélögum er falið tiltekið hlutverk á grundvelli laganna að fullnægðum tilgreindum kröfum. Þau hafa m.a. heimild til að leyfa einstaklingum sem eru ekki með skotvopnaleyfi og einstaklingum undir 20 ára aldri að nota skotvopn undir stjórn skotstjóra. Með vísan til þessa telur meiri hlutinn æskilegt að mæla nánar fyrir um hvaða skilyrði viðurkennd skotfélög skuli uppfylla í reglugerð, m.a. um skipan stjórnar, en það takmarki þó ekki rétt annarra skotfélaga til að starfa án þess að vera skilgreind sem viðurkennd skotfélög samkvæmt lögunum með þeim heimildum og skilyrðum sem því fylgja.

Nefndin fjallaði einnig um vörslu skotvopna og öryggisatriði þeim tengdum. Í 23. gr. vopnalaga er ákvæði um vörslu skotvopna en þar kemur m.a. fram að þegar skotvopn og skotfæri séu ekki í notkun skuli skotvopn annars vegar og skotfæri hins vegar geymd í aðskildum og læstum hirslum. Í reglugerð um skotvopn, skotfæri o.fl. er mælt fyrir um að eigi einstaklingur fleiri en þrjú skotvopn sé honum skylt að geyma þau í sérútbúnum vopnaskáp sem samþykktur sé af lögreglustjóra. Í 20. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin bætist ákvæði um að það sé skylda allra sem eigi skotvopn, nauðsynlega íhluti, skotfæri eða eftirlíkingar skotvopna að hafa yfir sérútbúnum vopnaskáp að ráða. Að mati margra umsagnaraðila er þessi breyting jákvæð og um margt tímabær þar sem nú sé lögfest skylda skotvopnaeigenda að geyma vopn sín í sérútbúnum vopnaskáp þegar við fyrstu skotvopnaeign. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og telur breytinguna til þess fallna að stuðla að auknu öryggi almennings og varna því að skotvopn komist í rangar hendur.

Þá er í 20. gr. frumvarpsins mælt fyrir um að í 4. mgr. 23. gr. laganna verði kveðið á um að skotvopn í eigu skotfélaga skuli varðveitt í húsnæði sem búið sé þjófavörn og vaktað af viðurkenndu öryggisfyrirtæki. Nokkur gagnrýni kom fram á þetta ákvæði af hálfu umsagnaraðila sem töldu að ákvæðið gerði t.d. skotfélögum úti á landi erfitt fyrir þar sem vottuð öryggisfyrirtæki væru ekki starfrækt á öllum landsvæðum. Í minnisblaði ráðuneytisins er áréttað að öryggisfyrirtæki séu alltaf á vakt þrátt fyrir að vera staðbundin og verði eigandi skotvopns þess ekki var að kerfi fari í gang, öryggiskerfið, geti fyrirtækið þegar í stað haft samband við hann eða lögreglu ef svo beri undir.

Meiri hlutinn telur þetta ákvæði stuðla að auknu öryggi við meðferð skotvopna og telur breytinguna því til bóta. Þá bendir meiri hlutinn á að í 6. mgr. 20. gr. frumvarpsins sé ráðherra heimilt að setja í reglugerð skilyrði, m.a. um undanþágu frá því að vopn skuli vöktuð af slíku fyrirtæki. Ákvæðið er því ekki fortakslaust. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að hafa hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram hafa komið við nánari útfærslu reglugerðarákvæðanna þar sem skilyrði um undanþágur frá vöktun vottaðra öryggisfyrirtækja verði tiltekin.

Í núgildandi vopnalögum er mælt fyrir um að skotvopni, sem sé hluti dánarbús, skuli innan tólf mánaða frá andláti leyfishafa ráðstafað til aðila sem hafi leyfi til að eiga slíkt skotvopn. Í 14. gr. frumvarpsins er lagt til að gerð verði breyting á ákvæðinu í þá veru að í stað þess að dánarbúum sé heimilt að hafa skotvopn í vörslum sínum sé gerð krafa um að slíkum vopnum verði ráðstafað tafarlaust til aðila sem hefur leyfi til að eiga eða versla með slík vopn. Að mati meiri hlutans er þessi breyting til bóta, enda til þess fallin að stuðla að auknu öryggi með því að skotvopn sem fyrirfinnast í dánarbúum komist síður í rangar hendur.

Nefndin fjallaði einnig um athugasemdir sem nokkrir umsagnaraðilar gerðu við aldurstakmark skotíþróttaiðkenda og telja það of hátt hér á landi. Það geri að verkum að íslenskir unglingar sem æfa skotíþróttir standi langt að baki jafnöldrum sínum í nágrannalöndunum þegar æfingum og keppni kemur. Í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins kemur fram að hingað til hafi verið miðað við að börn þurfi að hafa náð 15 ára aldri til að fá að stunda æfingar og keppni í yngri flokkum. Þá er áréttað að með frumvarpinu sé lagt til að við gerð reglugerðar verði horft til nágrannaríkja þegar kemur að því að setja viðmið um aldur til að fá æfa og keppa í skotfimi og þannig veitt heimild til að lækka þann aldur sem börn þurfi að hafa náð til að stunda þá íþrótt. Meiri hlutinn telur fram komnar ábendingar hvað þetta varðar gagnlegar og beinir því til ráðuneytisins að hafa þær til hliðsjónar við setningu reglugerðar um þetta efni með hliðsjón af því sem tíðkast í nágrannalöndum, sbr. heimild þess efnis í 3. mgr. 15. gr. frumvarpsins.

Nokkuð var einnig fjallað um heildarendurskoðun vopnalaga. Umsagnaraðilar voru að mörgu leyti jákvæðar í garð frumvarpsins en þó komu fram allnokkrar athugasemdir og tillögur til breytinga líkt og að framan hefur verið rakið. Margar þeirra voru þess eðlis að ljóst er að þær falla ekki undir þau ákvæði laganna sem hér eru til endurskoðunar. Má þar nefna ákall í umsögnum bogfimifélaga um rýmri heimildir til bogaeignar og athugasemdir lögreglunnar um úrbætur á þeim kafla laganna sem lýtur að meðferð sprengiefnis. Þá gagnrýndu ýmsir að lögin væru ekki endurskoðuð í heild sinni núna og mælt væri fyrir um of mörg atriði í reglugerð. Líkt og fram hefur komið lúta þær breytingar sem gera á með frumvarpi þessu fyrst og fremst að afmörkuðum þáttum laganna, svo sem skráningu, vörslu og eftirliti með skotvopnum sem og takmörkunum á innflutningi þeirra, auk innleiðingar á fyrrgreindri tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins.

Meiri hlutinn bendir á að um sé að ræða málefnasvið þar sem þróun í iðnaði og tækni geti breyst mikið á skömmum tíma og nauðsynlegt sé að geta brugðist við slíkum breytingum með setningu reglugerðarákvæða. Að mati meiri hlutans eru athugasemdir umsagnaraðila sem snerta á hinum ýmsu þáttum vopnalaga um margt gagnlegar og telur meiri hlutinn að þar kunni úrbóta að vera þörf í einhverjum tilvikum. Á hinn bóginn séu margar þeirra þess eðlis að réttara sé að tekið verði mið af þeim við heildarendurskoðun laganna enda snerti þær ekki þá þætti laganna sem voru endurskoðaðar að þessu sinni. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að við heildarendurskoðun vopnalaga verði því tekið mið af þessum athugasemdum eftir því sem talin verður þörf á.

Herra forseti. Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar til á frumvarpinu sem eru í aðalatriðum þrenns konar. Fyrsta og veigamesta breytingin sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu varðar afnám undanþágu við banni við innflutningi hálfsjálfvirkum skotvopnum. Í núgildandi vopnalögum er lagt almennt bann við því í 4. mgr. 5. gr. laganna að flytja inn til landsins ýmsar tegundir ýmist sjálfvirkra eða hálfsjálfvirkra skotvopna sem þar eru talin upp, m.a. sjálfvirkar og hálfsjálfvirkar skammbyssur og riffla. Í í 7. mgr. 5. gr. laganna er síðan mælt fyrir um undanþágu frá þessu banni með því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu geti, að fenginni umsögn ríkislögreglustjóra, heimilað innflutning slíkra vopna hafi þau ótvírætt söfnunargildi vegna aldurs þeirra eða tengsla við sögu landsins. Í f-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að þetta undanþáguákvæði verði fellt brott í heild sinni en í staðinn verði bætt við 4. mgr. 5. gr. laganna þrengra undanþáguákvæði um að lögreglustjóri geti heimilað að flytja inn eingöngu hálfsjálfvirkar skammbyssur eða hálfsjálfvirka riffla sérstaklega ætluðum til íþróttaiðkunar. Með þessari breytingu verður þannig heimilt að flytja inn þessar tilteknu tegundir skotvopna til íþróttaiðkunar en á hinn bóginn ekki lengur heimilt að flytja inn skotvopn á grundvelli þess að um safnvopn sé að ræða. Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er þessari breytingu ætlað að sporna við óhóflegum innflutningi á sjálfvirkum og hálfsjálfvirkum skotvopnum undanfarin ár, með skírskotun til þess að umrædd vopn séu safnvopn, og með því er brugðist við atriðum sem bent var á í áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2019 um skipulagðra brotastarfsemi á Íslandi og ábendingum í skýrslu þjóðaröryggisráðs frá 2021 um fjölgun slíkra vopna.

Meiri hlutinn telur rétt að hafa áfram í lögunum heimild til undanþágu frá hinu almenna banni við innflutningi skotvopna samkvæmt 4. mgr. 5. gr. vopnalaga, en í þeirri undanþágu myndi þá felast að eingöngu verði heimilt að flytja til landsins hálfsjálfvirk skotvopn, annars vegar til að nota til íþróttaiðkunar og hins vegar í söfnunarskyni.

Hvað safnvopnin varðar leggur meiri hlutinn til að einvörðungu verði heimilt að flytja inn hálfsjálfvirk safnvopn vegna aldurs þeirra og tengsla við hernámsliðið á Íslandi í síðari heimsstyrjöld og skuli vopnið m.a. vera í óbreyttri mynd frá því sem var á hernámstíma og ekki hafa verið breytt hvað varðar útlit, virkni eða notkunarmöguleika. Þá skal jafnframt sannað með óvefengjanlegum hætti að vopnið hafi verið í notkun hernámsliðs á Íslandi. Þannig er lagt til að bætt verði við undanþáguheimild til að flytja inn safnvopn þegar um er að ræða skotvopn sem sannarlega hefur verið hér á landi. Þannig þyrfti vopnið t.d. að sjást á ljósmyndum frá Íslandi og er miðað við hernámstíma þannig að ekki geti verið um að ræða vopn sem framleitt er eftir 1946. Þá skuli vopnið og tenging slíkra skotvopna við hernámsliðið vera bundin við íslenska grund en ekki loft eða haf í kringum Ísland. Telur meiri hlutinn þannig rétt að stuðla að því að söfnurum verði áfram gert kleift að safna slíkum vopnum hafi þau þá sérstöku sögulegu tengingu við land og þjóð sem lýst er hér að framan. Beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins við endurskoðun laganna að taka þetta ákvæði til endurskoðunar með hliðsjón af gefinni reynslu.

Að lokum, herra forseti, leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem fyrst og fremst eru tæknilegs eðlis. Í fyrsta lagi var fyrir nefndinni rætt um hugtakanotkun varðandi mismunandi félög samkvæmt frumvarpinu. Í samráði við dómsmálaráðuneyti telur meiri hlutinn að betur fari á því að samræma hugtakanotkun yfir „viðurkennd skotfélög“ og „viðurkennd skotíþróttafélög“ svo að eingöngu verði mælt fyrir um viðurkennd skotfélög. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis.

Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar minni háttar orðalagsbreytingar á 32. gr. frumvarpsins, að viðhöfðu samráði við ráðuneytið og samkvæmt ábendingum sýslumannaráðs sem lúta að lögum um skipti á dánarbúum og eru gerðar í því skyni að samræma heiti stofnana, gæta að réttri hugtakanotkun og auka skýrleika ákvæðanna. Meiri hlutinn tekur undir þessar ábendingar og telur þær vera til bóta.

Í þriðja og síðasta lagi leggur meiri hlutinn einnig til nokkrar breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis og þarfnast ekki sérstakrar skýringar.

Að framansögðu virtu, herra forseti, leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir hér og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Auk þess, herra forseti, vil ég koma því á framfæri að ég óska eftir því að málið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umræðu og að atkvæðagreiðsla um breytingartillögur fari fram í 3. umræðu.

Undir nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jódís, Skúladóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir. Bryndís Haraldsdóttir ritar undir álitið með heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapalaga.