154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

vopnalög.

349. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Þórarinsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég held að þetta varði einkum skíðaíþróttir, það sem við höfum séð t.d. frá Noregi, myndir þess efnis, að menn stunda skíðaíþróttina og svo er auk þess verið … (Gripið fram í: Skíðaskotfimi.) — já, skíðaskotfimi sem er hluti af íþróttinni, þ.e. að vera með skotvopn með sér, án þess að ég fullyrði nákvæmlega um það. En þetta er að sjálfsögðu ágætisábending sem við getum rætt í nefndinni við 3. umræðu. Ég vil bara nota tækifærið hér, frú forseti, og þakka nefndinni fyrir gott starf og sérstaklega formanni nefndarinnar fyrir að hafa leitt þessa góðu vinnu, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur. Það voru mjög góðar og gagnlegar umræður í nefndinni og við fengum fjölmarga gesti sem komu mikilvægum sjónarmiðum á framfæri sem nýttist okkur í þessari vinnu. Ég held að það sé mjög til vandað með þetta frumvarp þar sem er náttúrlega fyrst og fremst verið að bregðast við ákveðnum aðstæðum, eins og ég rakti hér í minni ræðu, og það stendur til að það verði heildarendurskoðun á vopnalögum innan vonandi ekki langs tíma. Já, ég vildi bara koma því á framfæri að þessi nefndarvinna var mjög gagnleg og góð.