154. löggjafarþing — 50. fundur,  14. des. 2023.

vopnalög.

349. mál
[17:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég þakka kærlega fyrir þetta nefndarálit og þessar breytingartillögur. Það var ein tillagan sérstaklega sem við höfðum smá áhyggjur af. Ég átta mig á því hver tilraunin er þar á bak við, þ.e. að leyfa innflutning á hálfsjálfvirkum skammbyssum og hálfsjálfvirkum rifflum til söfnunar vegna aldurs þeirra og tengsla við hernámsliðið. Það sem ég kannski átta mig ekki alveg á er þar sem er talað um að vopnið þurfi að vera í óbreyttri mynd og sjást á ljósmyndum og eitthvað svoleiðis, eins og flutningsmaður nefndarálits kom hérna inn á áðan, hvort það væri eintakið, nákvæmlega þessi byssa eða almennt þessi tegund af byssu, sem er eitthvað sem væri áhugavert að skoða. En það sem ég hef áhyggjur af er það sem er talað um hérna, að vopnið þurfi að vera í óbreyttri mynd frá því sem var á hernámstíma og megi ekki hafa verið breytt að því marki sem hefur áhrif á útlit, virkni eða notkunarmöguleika. Eins og kom fram í umsögnum er það að safna vopnum ekki eins og að safna frímerkjum. Það er einfaldlega ekki þannig. Þá gæti maður alveg sagt, og farið í hina áttina, að það væri eins og að safna atómsprengjum, sitthvorar öfgarnar kannski þar. Það voru notaðar atómsprengjur í fyrsta sinn í seinni heimsstyrjöldinni, ekki á Íslandi þannig að það yrði ómögulegt samkvæmt þessu alla vega, kannski fóru þær hérna í gegn, hver veit. Ég hef ekkert á móti því svona upp á söfnunargildið að gera en ég sé þetta meira sem safngripi, ekki endilega eitthvað sem er í einhverjum safnaraskáp á einhverjum heimilum hingað og þangað um bæinn. Ég virði alveg söfnunarhyggju fólks á einn eða annan hátt og sögulegar minjar o.s.frv., en vopn sem virka eru ekki sambærileg öllum öðrum hlutum sem almennt er safnað. Ég myndi kannski ekki draga línuna við sverð, ef við förum þangað, en hálfsjálfvirkir rifflar og skammbyssur sem með sanni virka og er hægt að nota — mér finnst það orka tvímælis. Mögulega væri hægt að setja nánari skilyrði eða eitthvað því um líkt. Ég myndi fagna því að við skoðuðum hvernig væri hægt að ná niðurstöðu þarna. Ég þakka kærlega fyrir samvinnu í því að skoða það betur og einstaklega málefnalega unnið hjá meiri hlutanum hvað það varðar, takk kærlega.