154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025.

234. mál
[13:36]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er á ferðinni fallegt mál með fögrum fyrirheitum um hugvitið, þar sem á að auka rannsóknarhlutverk háskóla, þar sem á að virkja metnað og hugvit í því skyni að efla þekkingu, skapa ný tækifæri fyrir vísindafólk, þar sem á að auka stefnumótun og samhæfingu á sviði rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Þetta er vel. Það á greinilega að efla margt í orði en það sem ég hnýt um er að á sama tíma fjölmenna vísindamenn á þingpalla Alþingis til að mótmæla sárum niðurskurði til rannsóknasjóða Vísinda- og tækniráðs sem á að skera niður núna um rúman milljarð samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þetta eru sömu sjóðir og eiga að vera að styrkja hér nýsköpunar- og þróunarstarf, vísindarannsóknir, nýsköpun og þróun. Það verður að segjast, herra forseti, að hér fer einfaldlega ekki saman hljóð og mynd. Það er ekki gott veganesti við upphaf þeirrar vegferðar að stórauka hér nýsköpun og vísindi og þróun og renna stoðum undir nýja útflutningsstoð í íslensku atvinnulífi.