154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:04]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen fyrir flutningsræðuna. Það er sannarlega tímabært að taka á þessum mjög svo viðkvæma málaflokki hvað lýtur að því að við erum búin að horfa upp á mikinn skaða og manntjón og fólk sem býr hér í iðnaðarhúsnæði og alls konar húsnæði sem hefur ekki verið viðurkennt til búsetu. Ég velti fyrir mér öðru í þessu sambandi, ekki bara þessum einstaklingum sem eru fórnarlömb þessa brogaða kerfis sem við höfum búið við upp á síðkastið heldur einnig því að það á ekki síður að líta til lögheimilisþáttarins. Hv. þingmaður bendir réttilega á að fólk er að skrá sig jafnvel í lögheimili án vitundar húsnæðiseigenda og annað slíkt. Getur hv. þingmaður litið á það í einhverjum tilvikum sem hreinlega neyðarrétt þar sem einstaklingar eru þvingaðir í að búa í kannski ósamþykktu húsnæði, mygluðum kjallara með börnin sín og fær þar af leiðandi engar húsaleigubætur? Þau eru ekki í viðurkenndu húsnæði sem þau geta skráð lögheimili sitt í þannig að þetta er í mínum huga ákveðinn neyðarréttur sem þau eru að grípa til til þess að reyna að bjarga sér. Oft er þetta fólk sem hefur misst heimili sín og á í engin hús að vernda. Ég er að velta fyrir mér: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera fyrir þessa einstaklinga sem eru settir það rammlega út af kortinu að þeir geta í rauninni enga björg sér veitt nema akkúrat að grípa til svona úrræða, sumir myndu segja óyndisúrræða, til að reyna að bjarga sér eins og kostur er?