154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Það er sannarlega tímabært að við opnum augun og stjórnvöld fari að taka utan um málið. Eins og hv. þm. Ingibjörg Isaksen sagði hér á undan þá er afar mikilvægt að við tökum heildstætt á málinu. Á þessu ári hafa orðið fjórir mjög alvarlegir eldsvoðar. Það er ekki langt síðan að það varð líka mjög alvarlegur eldsvoði á Bræðraborgarstíg þar sem létust þrír einstaklingar. Í sumum þessara tilvika er í rauninni engin útgönguleið í húsnæðinu, þetta er ósamþykkt húsnæði þar sem búa allt of margir, útgönguleiðir eru takmarkaðar og fólk hefur jafnvel þurft að grípa til þess úrræðis að kasta sér út um glugga þegar það hefur enga möguleika á því að komast öðruvísi út. Auðvitað er nauðsynlegt að gera bragarbót á þannig að eftirlitsaðilar hafi heimildir og umboð til þess að taka út og skoða húsnæði sem í rauninni er vitað að getur verið lífshættulegt, hvað þá þegar vitað er að það er nánast óíbúðarhæft.

Við sáum sláandi þátt á dögunum í sjónvarpi allra landsmanna þar sem var verið að sýna fram á óíbúðarhæft húsnæði þar sem engar varnir voru til staðar og allar bjargir bannaðar þar sem viðkomandi fjölskylda bjó í kjallara sem var grútmyglaður og dimmur og bara andstyggilegur og við hefðum öll sagt algerlega óíbúðarhæfur og ekkert okkar hefði viljað búa þar. En þá kom í ljós að það var í rauninni vitað að þetta var ekki eins og það átti að vera. Þarna var ekki allt með felldu en löggjöfin var ekki til staðar, heimildin var ekki til staðar til þess að slökkviliðsmenn og fulltrúar sem hefðu viljað gjarnan ganga úr skugga um þetta og gefa skýrslur og taka til hendinni hvað þetta varðaði hefðu getað gert það. Þeir höfðu ekki heimild til þess. En hér er verið að gera bragarbót hvað það varðar.

Við sjáum líka og það er mjög alvarlegt, finnst mér, að fólk er sett tugum saman í húsnæði sem er iðnaðarhúsnæði og alls ekkert sem segir til um að þar megi búa fólk, hvað þá tugum saman. Það sorglega við þetta er að í flestum tilvikum eru þetta farandverkamenn eða erlendir verkamenn sem eiga í rauninni í engin önnur hús að venda og þeirra vinnuveitendur bjóða þeim upp á það að hírast jafnvel tíu og tólf saman í einhverjum smákytrum með sameiginlegri eldunaraðstöðu og eina sturtu. Við þurfum að sjálfsögðu að taka á þessu og er það vel.

Mig langar líka að segja, eins og ég var að tala um áðan í andsvari við hv. þm. Ingibjörgu Isaksen, framsögumann málsins, að það er sárara en tárum taki að sjá hvernig er komið fram við fjölskyldur og einstaklinga sem búa við bág kjör og eiga í rauninni í engin hús að vernda. Við skulum átta okkur á því að það er ekkert náttúrulögmál að sjötta ríkasta land á jörðinni skuli koma þannig fram við þegnana að þau eigi ekki þak yfir höfuðið eða hafi ekki kost á því að fá þak yfir höfuðið sem er samþykkt og viðurkennt til búsetu. Það er þess vegna sem margir hafa gripið til þess úrræðis að skrá lögheimili sitt einhvers staðar annars staðar í þeirri von að ekki verði eftir því tekið og um leið gefst einstaklingum kostur á því að sækja um húsaleigubætur og jafnvel sérstakar húsaleigubætur. Oft eru þetta einstæðir foreldrar sem eiga bara virkilega nóg með að ná endum saman frá degi til dags og í rauninni ná alls ekki endum saman. Það er bragur á því að við tökum heildstætt á málinu og í stað þess að gera þessu fólki ókleift að skrá lögheimili sitt ólöglega og án vitundar húsnæðiseigenda þá gefum við þeim frekar kost á því að fá húsnæðið sem það býr í viðurkennt. Ef það er ekki íbúðarhæft þá verður það á valdi stjórnvalda algerlega og skylda stjórnvalda að gera bragarbót á því og gefa fólki a.m.k. kost á því, fyrst stjórnvöld hafa verið að draga lappirnar og ástandið á húsnæðismarkaði er sem raun ber vitni, að fá að njóta vafans, fjölskyldan, einstaklingarnir og börnin, og það ætti að vera á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að þessir einstaklingar fengju húsaleigubætur sem skipta í rauninni sköpum fyrir þá.

Ég nefndi líka áðan fólkið okkar sem býr í hjólhýsum og tjaldvögnum. Margir kjósa þetta búsetuform og vilja fá að vera þar í friði. En þau verða líka að fá það viðurkennt að þetta sé þeirra lögheimili þannig að þau geti nýtt sér öll önnur réttindi sem fylgja því að vera skráð með sitt lögheimili og sína búsetu á ákveðnum stað. Hins vegar hefur þetta fólk átt undir högg að sækja. Reykjavíkurborg hefur í rauninni hrakið þau burtu þaðan sem þau voru, voru með ágætisaðstöðu í Laugardal þar sem þau komust bæði í heitt vatn og rafmagn og gátu verið svolítið búsældarleg með sitt og voru sátt þar. Þar er líka nánd við aðra og auðvelt að leita aðstoðar ef eitthvað út af ber, t.d. ef kæmi upp eldur eða eitthvað annað gerðist á þessu svæði. Þess vegna er þetta frekar dapurt. Við höfum séð það í löndunum í kringum okkur að þar eru nú stundum bara heilu og hálfu litlu þorpin af húsbílum og hjólhýsum og fólk kýs þessa búsetu vegna þess að það vill frekar búa svona. Sumir hverjir hafa í rauninni ekki möguleika á því að búa annars staðar, hafa ekki ráð á að leigja eins og hér, hér er leiguverð komið upp úr öllum rjáfrum, og hafa ekki ráð á því að kaupa vegna þess að hér ríkir vaxtabrjálæði á markaðnum og við erum að glíma við verðbólgu sem við höfum ekki séð í háa herrans tíð og sem virðist ekki vera að gefa eftir nógu hratt. Ástandið er þannig að það virðist ekki vera sérstaklega bjart fram undan hvað það varðar.

Hins vegar liggur það náttúrlega algerlega ljóst fyrir að stjórnvöldum er í lófa lagið að taka utan um þennan þjóðfélagshóp og viðurkenna búsetu hans eftir því hvernig hann vill búa. Núna er t.d. búið að flytja þennan hóp, hann var rekinn burtu úr Laugardalnum og nú er hann kominn upp á Höfða. Það er allt annað og kuldalegra í hálfgerðu iðnaðarhverfi. Þarna er þeim gert að búa sem er í rauninni virkilega sorglegt vegna þess að það er ekki eins og það hafi verið komið til þeirra vatni eða að þau hafi aðgang að vatni og öðru sem við myndum nú flest almennt telja eðlilegt og sjálfsagt að hafa aðgengi að. Í raun og veru sjáum við það í Flokki fólksins þannig að það ætti að koma með fallegt svæði, ræktað fallegt svæði, með aðgangi að öllum helstu nauðsynjum; rafmagni og vatni og hreinlætisaðstöðu að öðru leyti, kannski eins og á tjaldsvæðum, vel útbúnum tjaldsvæðum þar sem er jafnvel hægt að þvo þvottinn sinn, þar er þvottavél og þurrkari og ýmislegt. Það er hægt að gera ýmislegt ef vilji stjórnvalda stæði til þess að koma til móts við samfélagið í heild sinni en draga ekki alltaf einhverja í dilka og henda þeim í skammarkrókinn.

Það liggur algjörlega á borðinu að þessi stjórn er stjórn auðmanna, sem heykist ekki hið minnsta á því að koma með alls konar álögur og gjöld á borgarana en alls konar ívilnanir og huggulegheit og undanbrögð á t.d. laxeldi eða bílaleigur sem skila methagnaði. Það er athyglisvert í öllu þessu, þegar við erum að berjast fyrir réttlæti, jafnræði og reyna að gera sem best fyrir alla, að sjá hvernig þessi stjórnvöld voga sér að forgangsraða fjármunum sem við eigum öll saman, hvernig fjármunir hafa ekki farið þangað sem við í Flokki fólksins teljum nauðsynlegt að setja þá og forgangsraða. Í þessu tilviki, þá er ég að tala um hjólhýsa- og tjaldvagnasvæðið okkar, þá hefði verið hægt í samráði við t.d. borgina að tryggja það að þessir einstaklingar fengju ekki bara að skrá lögheimili sitt á svæðinu heldur að finna líka fallegt búsældarlegt svæði með aðgengi að því sem öllum þykir eðlilegt að hafa hér í okkar ríka landi. En það virðist vera mikil bið á því og ég veit að þessi hópur fólks hefur ítrekað beðist ásjár og beðið um aðstoð við að koma sér upp sómasamlegri íveru því að fæst þeirra hafa efni á því að búa á nokkurn annan hátt, þó svo að auðvitað kjósi einstaka aðilar það hreinlega, hvort sem þeir hafa ráð á því að búa einhvern veginn öðruvísi, að búa í húsbílum sínum eða hjólhýsinu sínu. Það er svo aftur allt önnur saga.

En hér erum við búin að flytja allnokkur mál. Loksins erum við að sjá eitthvað sem kemur frá ríkisstjórninni og er það bara virkilega vel. Það gerist svona rétt fyrir jól, páska og sumarfrí, þá geysast inn ráðherramálin. Venju fremur hefur mér fundist hafa gengið vel að þessu sinni. Þó koma nú upp af og til þættir sem ekki er mögulegt að sætta sig við og ég er hrædd um að sú staða sé einmitt að koma upp hér og nú. Þetta er t.d. mál um lögheimilisskráningu og brunavarnir og breytingar á ýmsum lögum þar sem eftirlitsaðilum er gefin heimild til að taka út húsnæði sem hugsanlega er ákveðin dauðagildra eins og við erum búin að horfa upp á. Eins og ég sagði áðan hafa verið fjórir stórbrunar á þessu ári þar sem líka hefur verið mannfall og alveg skelfilegt að horfa upp á það.

Ég get líka sagt ykkur það að hérna uppi á Höfða er t.d. húsnæði þar sem þeir sem eru að glíma við fíknisjúkdóm hafa fengið að vera í svokallaðri eftirmeðferð, svona ákveðið áfangaheimili sem kallast Draumasetrið. Nú hefur verið ákveðið að það sé ekki nógu öruggt og ekki nógu gott og stendur til að loka því. Hvað verður um þá einstaklinga sem þar eru í bata vegna dauðans alvöru sjúkdóms er hins vegar önnur saga. Það er það sem mér finnst oft skorta, að þegar verið er að opna einar dyr þá lokast ekki aðrar heldur lokast þetta allt saman og einstaklingunum er gert ómögulegt að halda áfram í sinni eftirmeðferð og sínum bata. Í raun og veru ættu stjórnvöld að sjá sóma sinn í því, ef þau vita hvaða rekstur fer fram í húsnæði sem er talið vera hættulegt til búsetu, að koma til móts við þessa einstaklinga og koma þeim fyrir í húsnæði sem gæti haldið við því bataferli sem er í gangi.

Við verðum að átta okkur á því að það býr mannauður í okkur öllum og þeir sem glíma við fíknisjúkdóm þrá ekkert heitar en að fá stöðugleika í sitt líf. Það tekur langan tíma og getur tekið mislangan tíma en í flestum tilvikum alllangan tíma, það fer eftir því hvað einstaklingurinn hefur verið að glíma lengi við fíknisjúkdóminn, það getur tekið ansi langan tíma fyrir hann að finna jafnvægi og tileinka sér þau meðul sem hann þarf að tileinka sér til þess að geta haldið áfram í sínum bata með bjartsýni og brosi og tekið þátt í samfélaginu okkar alveg upp á nýtt. Það er á ábyrgð stjórnvalda að skella t.d. ekki í lás hverju sem er, af því bara, án þess að koma með úrbætur til handa þeim sem þurfa á þeim að halda. Flestir af þessum einstaklingum og allir eiginlega hafa í engin önnur hús að venda. Þetta er allt að tveggja ára meðferð, eftirmeðferð, sem einstaklingarnir fá á þessum stöðum og það er í rauninni algerlega óafsakanlegt að skella bara í lás án þess að gefa þeim kost á því að halda áfram í bataferli sínu. Maður tekur ekki krabbameinssjúkling sem er í lyfjameðferð og segir allt í einu við hann: Farðu heim til þín og komdu eftir ár, sjáum hvernig þér líður þá. Það þýðir ekki. Við erum að tala um veikt fólk og okkur ber siðferðisleg skylda til þess og lagaleg og samkvæmt stjórnarskrá og hverju sem er að tryggja búsetu fólks.

Með þessu frumvarpi sem við erum hér með til umfjöllunar er verið að leitast við að tryggja öryggi fólks að einhverju leyti og er mjög mikilvægur þáttur í því, brunavörnum og öðru slíku, að fólk sé ekki í rauninni í dauðagildrum án þess jafnvel að vita af því. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ég hefði gjarnan viljað að við hefðum haft samráð, stjórn og stjórnarandstaða, við hefðum sest niður saman, betur sjá augu en auga, og við hefðum talað um málið og komið sameiginlega með frumvarp sem hefði tekið heildstætt á málunum, líka þeim þáttum sem ég er að tala um, hvað það er sem við getum gert til að koma til móts við fleiri hópa í samfélaginu eins og ég hef tiltekið.

Það er athyglisvert, frú forseti, að ég er svo sjónlaus að ég sé ekkert á þetta. En hvað um það. Við höfum hugsað okkur hér að ræða þetta alvarlega mál þangað til að við erum öll sátt við það og þess vegna væri mjög ánægjulegt að sjá einhverjar breytingar gerðar núna áður en málið fer aftur inn í nefnd fyrir 3. umræðu, þar sem væri hægt að líta á fleiri aðila sem væru í hugsanlegri hættu vegna eldsvoða og aðra sem búa við óöryggi vegna þess að þeir hafa í rauninni í engin önnur hús að venda en óskráð og ósamþykkt húsnæði.

Það er nú svo einkennilegt sem það er að oft og tíðum virðast vera hér óprúttnir aðilar sem jafnvel nýta sér einhver búsetuúrræði sem þeir myndu ekki einu sinni láta hundinn sinn sofa í. Það er nú þannig. En það hefur verið látið viðgangast hér alllengi. Við vonum náttúrulega svo sannarlega að þetta frumvarp muni koma í veg fyrir það að fleiri stórbrunar af því tagi sem ég nefndi, með þeirri sorg og ótímabærum dauða, muni endurtaka sig. En auðvitað getum við aldrei sagt eitt eða neitt og við fáum alltaf bruna af og til af ýmsum völdum, það er kannski skilinn eftir pottur á straum óvart og viðkomandi hefur farið af bæ í einhvern tíma og það næsta sem hann veit er að húsið hans er alelda. En í þessu tilviki erum við að tala um mun alvarlegri mál þar sem einstaklingar geta ekki einu sinni, ef t.d. kemur upp eldur og þeir sofa þétt saman í herbergjum á þröngum gangi og annað slíkt og jafnvel ekki búið að setja stigann sem brunavarnaeftirlitið hafði sagt að yrði að hafa til að hafa neyðarútgang, þá eru ekki margar bjargir fyrir þá að reyna að forða sér undan eldinum. Þess vegna höfum við horft upp á, eins og á Bræðraborgarstíg, skelfilegar afleiðingar af slíku.

Mér þótti skrýtið af hverju við brugðumst ekki við fyrr. Maður er búinn að bíða eftir þessu núna í ansi langan tíma en betra er seint en aldrei og þetta er þó skref sem er tekið, mikilvægt skref sem er tekið í rétta átt. En við vildum gjarnan að það væri heildstæðara og tæki betur utan um stærri hóp sem býr í óöryggi og í rauninni vanlíðan.