154. löggjafarþing — 51. fundur,  15. des. 2023.

lögheimili og aðsetur o.fl.

542. mál
[20:57]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er reyndar ekki í þeirri nefnd sem þetta mál hefur verið til meðferðar hjá en ég verð að segja eins og er að mér geðjast ekki vel að þessu máli. Ég er ekki búinn að mynda mér fulla afstöðu til þess. Þegar ég var að vinna í Skipulagsstofnun, var lögfræðingur Skipulagsstofnunar, þá kom mál upp sem var þekkt sem Bláskógabyggðarmálið. Þar féll hæstaréttardómur og niðurstaða Hæstaréttar var sú að sveitarfélaginu Bláskógabyggð hefði ekki verið heimilt að synja tiltekinni fjölskyldu um skráningu lögheimilis í sumarhúsi. Það voru ákveðin viðbrögð sem fóru þar af stað og var gerð lagabreyting. Lögunum var breytt í þá veru að óheimilt var að skrá lögheimili í frístundabyggð. Hér erum við að leyfa skráningu í atvinnuhúsnæði. Ég hefði talið að það væri þá betra að leyfa fólki að skrá lögheimili sitt í frístundabyggð heldur en í atvinnuhúsnæði. Ég get tekið dæmi um það sem kemur ágætlega fyrir í frumvarpinu. Með leyfi forseta segir í frumvarpinu:

„Litið hefur verið svo á að slökkvilið hafi heimild til að fara inn í atvinnuhúsnæði án dómsúrskurðar þrátt fyrir að fólk virðist búa í húsinu enda sé búsetan ólögleg. Sú staða hefur komið upp að slökkviliði hafi ítrekað verið meinaður aðgangur að íbúðarhúsnæði.“

Hér virðist verið að búa til hóp fólks, stétt fólks sem býr við minni réttarvernd, t.d. varðandi aðgang að íverustað sínum og friðhelgi einkalífsins. Ef slökkvilið getur farið inn í atvinnuhúsnæði án dómsúrskurðar og það býr einhver þar þá er það brot á friðhelgi þess fólks sem er skráð í atvinnuhúsnæði. Mér finnst svolítið verið að búa til stétt fólks (Forseti hringir.) sem kemur hingað að vinna, fær ekki húsnæði nema atvinnuhúsnæði og býr við lakari borgaraleg réttindi (Forseti hringir.) en aðrir í einu ríkasta samfélagi heims. Mér þætti gott að heyra viðhorf hv. þingmanns hvað þetta varðar.