154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[11:26]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Það er auðvitað rétt sem hér er bent á að þegar orkuskiptin hafa gengið í gegn í flugi, ef það tekst sem við öll vonum, munu flugvélar ganga fyrir sjálfbæru eldsneyti eða eldsneyti sem losar miklu minna en það sem nú er notað. Ég tel að þær breytingar sem hér er verið að gera séu einmitt þannig að þær þrýsti á þessar breytingar vegna þess að verðið mun stýra því hversu hratt þær verða gerðar. Já, markaðurinn stýrir aðgengi og verði að stóru leyti. Hvað geta stjórnvöld gert? Þau geta styrkt rannsóknir og nýsköpun á þessu og auðvitað, eins og hv. þingmaður bendir á, sett það í samhengi orkuöflunar hér á landi. Það er alveg rétt. En þá þarf líka að taka utan um það og meta hversu mikið af þeirri orkuöflun getur verið hér og hvernig við nýtum það. Ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvort ný tegund eldsneytis krefjist þess að þess verði alls aflað á Íslandi. Við erum að tala um alþjóðlegan flugrekstur og það er auðvitað verið að dæla í vélar á öllum flugvöllum í heimi. Ég treysti mér því ekki til að svara því hvaða áhrif það hafi á aðstæður á flugvellinum í Keflavík en ég er meira en til í að taka samtalið og rannsóknina á því hvernig við getum komist þangað að við tryggjum orkuskipti í flugi.