154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[12:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir andsvarið. Fyrst er það að segja að tækifærin hvað varðar aukna græna orkuframleiðslu eru hverfandi undir stjórn núverandi ríkisstjórnar. Ég hef lýst miklum áhyggjum af því og ég veit að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson deilir þeim áhyggjum en hann styður nú samt þessa ríkisstjórn sem kemur hér engu í verk. Það væri kannski áhugavert ef hv. þingmaður færi hér í ræðu á eftir og útskýrði hvaða leið væri fær til að nýta þessi tækifæri eins og staðan lítur út núna. Við vorum að ræða í gær sérstök lög um skömmtunarstjóra rafmagns á Íslandi og hv. þingmaður stendur hér og talar um stórkostleg tækifæri í grænni orkuframleiðslu fyrir afhendingu eldsneytis á Keflavíkurflugvelli. Icelandair kemur nú bara beinlínis inn á það umsögn sinni, eins og ég kom inn á í ræðu minni, með leyfi forseta:

„Í dag er mjög svo takmarkað framboð í heiminum af SAF en hlutfall þess er einungis 0,1% af öllu eldsneyti sem notað er í flugi og verðið allt að áttfalt hærra.“

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Óvissa er til staðar varðandi ákvæði samkomulagsins um aðlögun Íslands og möguleika á að fá 100% endurgreiðslu í formi losunarheimilda á verðmun á öllu sjálfbæru flugvélaeldsneyti og jarðefnaeldsneyti á flugvöllum á Íslandi.“

Það er auðvitað bara vegna þessarar stöðu sem uppi er. Varan sem er andlag þessa regluverks er ekki til. Hún er ekki til og verður ekki til á Íslandi ef hæstv. ríkisstjórn heldur áfram að þvælast fyrir aukinni orkuframleiðslu. En varðandi áhrifin á íslenska flugrekendur, afsakið, ég verð að koma inn á það aftur í seinna andsvari, þá liggur fyrir með losunarheimildirnar að næsta ár er ekki undirorpið þessum viðbótarheimildum árin 2025 og 2026, þannig að það getur ekki haft nein raunveruleg áhrif. Hitt atriðið sem snýr að þessu sjálfbæra flugvélaeldsneyti er að það er ekki til og (Forseti hringir.) hvernig getur það haft áhrif í raun ef varan er ekki til, sem er andlag þess að hvatarnir virki.