154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[12:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg sérstök ósvífni að ætla að þrengja að okkur hvað gagnrýni á þetta mál varðar vegna þess með hvaða hætti ríkisstjórnin hefur haldið á því. Það er alveg sérstök gerð af ósvífni. Og spurningin um víðsýni sem hv. þingmaður kom inn á hér áðan þegar ríkisstjórnin hefur ákveðið að hoppa á vagn Evrópusambandsins í þessu delluverki sem gengur út á það að troða fólki sem vill fljúga í járnbrautarlestir — hver er víðsýnin í því, hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson? Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það væri mikið til vinnandi að hér yrði mikil framleiðsla á grænu eldsneyti til langrar framtíðar sem m.a. yrði nýtt á flugvélar sem hér fara um. En gerum það þá bara. Við þurfum ekki að undirgangast þetta delluregluverk með stórkostlegu tjóni. Hv. þingmaður er bara heiðarlegur með það að þetta eldsneyti verður auðvitað ekki til þegar þetta regluverk verður innleitt eins og það er. (Gripið fram í.) Já, ég hef nógan tíma núna. En eldsneytið verður ekki til þannig að það á að steikja íslenska hagsmuni, flugrekstraraðila, ferðaþjónustuaðila, þá sem flytja vörur til og frá landinu bara af því eldsneytið verður einhvern tíma til í framtíðinni. Þetta er algerlega fráleitt og ber ekki vott um neina víðsýni.

En til þess að koma inn á það sem hv. þingmaður spurði um, hvað svo, hvað gerist verði þetta ekki innleitt núna um áramótin, þá kom ég inn á það í undir lok fyrra svars míns að varðandi þessa tvo þætti, annars vegar losunarheimildirnar, þá höfum við alveg tíma til að glöggva okkur betur á þessu máli inn í næsta ár vegna þess að viðbótarheimildirnar falla undir 2025 og 2026, ekki 2024 sem er u.þ.b. að ganga í garð. Og varðandi jarðefnaeldsneytið þá er það ekki til. (Forseti hringir.) Icelandair og Play geta ekki keypt það. Það er ekki til og það verður ekki til í janúar og ekki febrúar, ekki mars eða maí. Það er ekki til. (Forseti hringir.) Þannig að við höfum nægan tíma til að glöggva okkur á þessu máli sem er verið að þvinga í gegnum þingið á fráleitum hraðar.