154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[13:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Síðasta ræða mín fór eiginlega öll í að rekja tímalínu málsins samkvæmt beiðni utan úr sal en nú ætla ég að snúa mér nánar að þáttum málsins. Hér er ég enn að ræða flugskattana og mun síðar koma að öðru. Ég tel ástæðu til að rifja það upp fyrir hv. þingmönnum hversu mikið tilefni ríkisstjórnin taldi til að bregðast við þessu máli. Ég hef áður nefnt ræðurnar sem hér voru haldnar um að þetta væri algerlega óaðgengilegt, óásættanlegt og erfiðasta málið sem hefði komið hingað vegna EES. Síðast þegar var talið voru fundirnir vegna málsins orðnir held ég hátt í 200. Meira að segja menningarmálaráðherra fór til Brussel til að reyna að leysa málið — ótal fundir til að ræða þetta.

Sá fundur sem vakti mesta athygli og skilaði þeirri niðurstöðu sem við þingið erum búin að fá í fangið, ef niðurstöðu skyldi kalla, var fundur hæstv. forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, með Ursulu von der Leyen. Áður en af þessum fundi varð hafði hæstv. forsætisráðherra skrifað fyrrnefndri Ursulu bréf til að lýsa áhyggjum sínum af stöðu mála. Þessu bréfi fylgdu ýmis fylgiskjöl, gögn sem höfðu verið unnin fyrir Ísland til að sýna fram á alvarleika málsins og ég mun hér á eftir fara yfir hluta þessara gagna. Þetta bréf kallaði á svar, sem barst reyndar alveg ótrúlega seint miðað við stærð málsins að mati ríkisstjórnarinnar, en það fékkst ekki birt. Hvorki bréfið frá hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, né svarbréfið frá Ursulu mátti birta. Hæstv. forsætisráðherra neitaði að birta bréfin og veittar voru einhverjar skýringar á borð við að með því væri verið að veikja hugsanlega samningsstöðu Íslands í málinu. En svo tók einhver fjölmiðillinn upp á því, ég held að það hafi verið fréttastofa Vísis og Stöðvar tvö, Bylgjunnar, að spyrja bara Ursulu eða Evrópusambandið hvort ekki mætti sjá þetta bréf. Jú, jú, bréfið kom og þá sá forsætisráðuneytið loks ástæðu til að birta sitt bréf. En svarbréf Evrópusambandsins, undirritað af Ursulu, var í raun — ég hef sagt þetta áður, frú forseti — bara diss á afstöðu íslenska forsætisráðherrans og áhyggjur Íslendinga. Þetta var ekki einu sinni sérstaklega kurteislega orðað diss. Það var bara gert lítið úr þessum áhyggjum Íslendinga. Svo auðvitað féllst ríkisstjórn Íslands á forsendur dissbréfsins og greip til þess ráðs að fresta áhrifunum af þessu — gamla trikkið en áhrifin samt hanga yfir eftir sem áður.

Svo hefur verið nefnt, og kemur fram í þessu bréfi og eftir fundinn í ráðherrabústaðnum, að Ísland geti fengið niðurgreiðslu á grænu eldsneyti, þ.e. á muninum á verði þess sem kallað er grænt eldsneyti á flugvélar og hefðbundins jarðefnaeldsneytis. En þetta var engin sérstök undanþága fyrir Ísland. Þetta lá alltaf fyrir að ætti að vera liður í þessu. Ursula segir eitthvað á þá leið í fyrrnefndu bréfi: Getið þið ekki bara farið að framleiða meira af sjálfbæru eldsneyti? Þá er vandinn sá, eins og fram kom í ræðum hérna áðan, að íslensk orkuframleiðsla ræður ekki einu sinni við eða á alla vega bágt með að standa undir þörfunum eins og þær eru nú þegar, hvað þá að fara í gríðarlega orkufrekan iðnað eins og að framleiða þotueldsneyti á endurnýjanlegan hátt, og alveg ljóst að framleiðsla á þessu græna endurnýjanlega eldsneyti verður ekki næg til að standa undir nema broti af flugi til langrar framtíðar. Nú er þetta 0,1% og (Forseti hringir.) áttfalt dýrara heldur en annað þotueldsneyti.

Frú forseti. Ég komst ekki yfir eins mörg atriði og ég hafði hugsað mér og bið yður því að skrá mig aftur á mælendaskrá.