154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[13:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla að fikra mig aftur yfir í flughluta málsins. Hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni, sem var hér virkur í athugasemdum — afsakið, ég gat ekki sleppt þessu — kom hér ítrekað í andsvör við upphaf þessarar umræðu og ég vona að hann komi hingað aftur á eftir, að afloknum þeim fundi sem hv. þingmaður þurfti að hlaupa á. Þá lagði hv. þingmaður mikið upp úr niðurlagsorðum Icelandair í umsögn sinni þar sem hvatt var til þess að málið yrði samþykkt og gert að lögum fyrir áramót. En þessi umsögn Icelandair minnir mig dálítið á ræðu núverandi hæstv. matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu í ríkisstjórninni 2009–2013, þar sem ræða þáverandi ráðherra og núverandi hæstv. ráðherra fór í það að útskýra hversu slæm hugmynd það væri að Ísland gengi í Evrópusambandið og fann því allt til foráttu, en taldi þó mjög mikilvægt að sækja um aðild að því. Það er ein undarlegasta ræða sem ég heyrt hér í þinginu. Það þyrfti að rifja hana upp með ítarlegri hætti við tækifæri. En þessi umsögn Icelandair er svolítið svipuðu marki brennd því að efnisatriði umsagnarinnar eru öll í varúðarátt, dálítið svipað eins og hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson var í andsvörum sínum við hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur hér áðan.

Til að tæpa stuttlega á þessu, virðulegur forseti, með leyfi:

„Sérstaða Íslands þegar kemur að millilandasamgöngum, þar sem flug er í lykilhlutverki, er þess eðlis að stjórnvöld þurfa að gæta hagsmuna lands og þjóðar svo að hagræn áhrif laganna verði ekki svo íþyngjandi að þau skaði hag borgara, íslenskra flugrekanda og íslensks efnahagslífs í heild.“

Það þarf ekki sérstaka lagni í að lesa á milli línanna til að skynja þær áhyggjur sem Icelandair setur fram í þessari málsgrein. Síðan er fjallað um samkomulagið sem var gert í aðdraganda Evrópuhátíðarinnar og segir svo, með leyfi forseta:

„Aðlögunin felur jafnframt í sér endurskoðunarákvæði sem virkjast þegar aðlögunartíminn er runninn út og mikilvægt að þá verði tekið tillit til landfræðilegrar stöðu landsins svo að hagsmunir Íslands verði áfram tryggðir en ekki verði einungis um tímabundin sérákvæði að ræða.“

Frú forseti. Auðvitað verður bara um tímabundið sérákvæði að ræða. Ég var nú bara rétt áðan að lesa upp úr nefndaráliti meiri hlutans, sem fær að ráða hvað stendur í því, og þar kom svo skýrt fram með hvaða hætti kontóristar ESB trakteruðu sjónarmið Íslands. Trúir því einhver að það verði með öðrum hætti gagnvart þessum 3. lið sérstakrar aðlögunar sem kemur fram á bls. 29 í bókinni, sem rammar inn frumvarpið, þar sem er talað um að á árinu 2026 verði lagt mat á þetta en svo taki kerfið við eins og það er 1. janúar 2027? Evrópusambandið lítur svo á að málið sé afgreitt. Svo bara tekur kerfið við eins og það er, rétt eins og sjónarmið Evrópusambandsins draga fram í nefndaráliti meiri hlutans gagnvart siglingunum. Það er því einhver óskhyggja, naívismi, barnaskapur að halda að árið 2026 verði bara allir klárir, að allir kontóristarnir í Brussel verði bara uppteknir af því að finna leið til að tryggja hagsmuni Íslands sem ekki er í klúbbnum. Þetta ber allt að sama brunni, að verið sé að kaupa sér skjól fram fyrir þetta horn sem nú mætir okkur um áramótin og þessi umsögn Icelandair ber þess merki. Í umsögn Icelandair er jafnframt komið inn á 2. liðinn í þessari sérstöku aðlögun, sem fjallar um endurgreiðslu á verðmun á sjálfbæru flugvélaeldsneyti samanborið við jarðefnaeldsneyti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í dag er mjög svo takmarkað framboð í heiminum af SAF en hlutfall þess er einungis 0,1% af öllu eldsneyti sem notað er í flugi og verðið allt að áttfalt hærra.“

Framboðið af þessu eldsneyti er mjög takmarkað og í umsögninni er lagt (Forseti hringir.) — skrambi er ræðutíminn stuttur, frú forseti. Ég reyni að halda flæðinu gangandi í næstu ræðu og bið þig um að setja mig aftur á mælendaskrá.