154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þegar ég þurfti frá að hverfa síðast var ég að koma að atriði sem hv. þm. Bergþór Ólason nefndi hér stuttlega og varðar viðbrögð ráðherra þessarar ríkisstjórnar við tíðindunum um að til stæði að fara að leggja ný gjöld á flutninga með skipum. Það lá strax fyrir að áhrif þessa yrðu umtalsverð, kostnaðurinn yrði töluverður, og hann að sjálfsögðu endar hjá neytendum, óhjákvæmilega, en einnig myndi þetta leiða til minni þjónustu eins og komið hefur á daginn; þegar búið að tilkynna að áfangastöðum verði fækkað. Þangað var ég kominn í lok síðustu ræðu að draga þá ályktun að þetta myndi bitna sérstaklega illa á landsbyggðinni. Menn þekkja það hversu stórt atriði flutningskostnaður er þar og það skekkir því miður mjög samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar á ýmsan hátt gagnvart höfuðborgarsvæðinu hversu hár flutningskostnaður er. En nú mun hann sem sagt hækka enn en um leið fækkar áfangastöðunum vegna þessa, sem þýðir þá að það verður flóknara og þarf að fara enn lengri leiðir til að nálgast þann varning sem menn þurfa á að halda eða flytja út vörur eða flytja annað innan lands. Þetta hefur því gríðarlega mikil áhrif.

Ráðherrarnir tóku þessu ekki aðeins af furðu mikilli værukærð, þeir nánast fögnuðu þessum nýju álögum á landsmenn og töldu þetta bara hið besta mál og koma nú þeir sem mest hafa tjáð sig um þetta flestir með frasa á borð við að allir þurfi að leggja sitt af mörkum og jafnvel hnýtt í fyrirtækin, svona nánast, fyrir að hafa ekki greitt sérstök græn gjöld fram að þessu, þannig að þetta væri bara hið besta mál. Fyrir vikið ætlaði Ísland eða íslensk stjórnvöld ekki einu sinni að sækja um undanþágur sem þó var nokkuð ljóst að við hefðum átt rétt á miðað við hvernig þetta regluverk er skrifað.

Ég ætla að nefna hérna nokkur dæmi um viðbrögð ráðherranna. Hæstv. innviðaráðherra sagði í nokkrum viðtölum, ég minnist þess nú að hafa heyrt í honum í útvarpi, þetta var held ég í Ríkisútvarpinu, einfaldlega telja að við ættum ekki að sækja um undanþágur. Hér í frétt af sama miðli, þ.e. Ríkisútvarpinu, segir hann ólíklegt að íslensk stjórnvöld sæki um undanþágur vegna mengunarskatts sem til stendur að setja á skipaflotann. Allar greinar þurfa að taka þátt í baráttunni gegn loftslagsvánni, segir ráðherrann.

Svipað var upp á teningnum hjá hæstv. forsætisráðherra sem segir að allar atvinnugreinar verði að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, ekki sé þörf á sérlausnum í sjóflutningum í sama mæli og í flugi. Hér er verið að tala um flugmálið sem svo tapaðist, frú forseti, ekki sé þörf á sérlausnum í sama mæli og í flugi. Ríkisstjórn og Alþingi eigi þó eftir að fjalla um málið, segir hún, og nú erum við að gera það hér. Ja, tveir þingmenn a.m.k. eru að gera það. Ég veit ekki hvar allir hinir eru sem hæstv. forsætisráðherra sagði að myndu fjalla um málið á Alþingi.

Utanríkisráðherra á þeim tíma lét ekki sitt eftir liggja og talaði eins og hinir ráðherrarnir um það að við Íslendingar þyrftum að leggja af mörkum og ættum ekki að vera að sækjast eftir undanþágum, enda vildum við standa okkur svo svakalega vel í þessum loftslagsmálum.

En hversu miklu máli skiptir þetta framlag Íslendinga? Hversu miklu máli skiptir að leggja sífellt ný gjöld og skatta á íslenskt atvinnulíf og íslenskan almenning? Það skiptir afskaplega takmörkuðu máli og getur jafnvel haft öfug áhrif því að það sem við höfum horft upp á gerast á undanförnum árum er að það er verið að veikja iðnað, verðmætasköpun og framleiðslu á Vesturlöndum með því að menn séu sífellt að finna upp eitthvert svona nýtt dellumakerí í til að refsa fólki. Framleiðslan og verðmætasköpunin er að flytjast annað þar sem hún verður til með mun óumhverfisvænni hætti oft á tíðum (Forseti hringir.) en hér á Vesturlöndum, ég tala nú ekki um á Íslandi. (Forseti hringir.) — Frú forseti. Ég bið yður að vera svo góða að setja mig aftur á mælendaskrá.