154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

skattar og gjöld.

468. mál
[17:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hér erum við að fresta gildistöku ákvæðis sem kveður á um að fella niður persónuafslátt af almannatryggingaþegum sem búa erlendis og hugsanlega gætu verið svindlarar og verið kannski að hirða persónuafslátt úr tveimur löndum þrátt fyrir að við séum nú með tvísköttunarsamninga og okkur sé í lófa lagið að fylgjast með því. En við stóðum saman sem einn maður hér í gær og ég vil þakka þessari frábæru stjórnarandstöðu fyrir að lesa vel í spilin með mér og okkur í Flokki fólksins. Ég vil þakka stjórninni líka að sama skapi fyrir að taka utan um málið og greiða fyrir því þannig að við munum vinna það mun betur þegar það kemur aftur inn í nefnd og fá allar þær upplýsingar sem okkur fýsir til þess að reyna að tryggja það að þetta muni ekki bitna á í rauninni þeim sem síst skyldi, þ.e. fátækustu eldri borgurum og öryrkjum sem hafa flúið land og kosið með fótunum til þess að reyna að komast af með þá hungurlús sem þeim er ásköpuð úr almannatryggingakerfinu. En ég segi já við þessu auðvitað.