154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Staða mála varðandi Grindavík, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:22]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að endurtaka þau orð sem hér féllu fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan þegar Grindvíkingar þurftu að rýma bæinn sinn í skjóli nætur — og skilaboð til þeirra: Þið megið vita að þjóðin stendur með ykkur. Og ég vil láta í ljós djúpa samúð í garð Grindvíkinga sem hafa á undanförnum dögum, eftir að gaus innan bæjarmarka, þurft að horfast í augu við gífurlega erfiða stöðu. Óvissan er gríðarleg hvað varðar öryggi í bænum og tímaramma þessa atburðar. Slík óvissa getur valdið mikilli vanlíðan og eðlilega vill fólk fá festu í líf sitt. Um viðkvæmt mál er þó að ræða og því fylgja flóknar tilfinningar, eins og ég hef upplifað í samtölum mínum við Grindvíkinga. Tilfinningin um að komast áfram, halda áfram og byrja upp á nýtt berst við sorgina um að yfirgefa staðinn og samfélagið og vonina um að snúa aftur. Fólk er hrætt um að taka ranga ákvörðun en vill á sama tíma ekkert heitara en að taka einhverja ákvörðun. Þetta er mjög erfitt, forseti, og ég get ekki sett mig í þessi spor sjálf.

Ég vil líka samt benda á að hlutverk okkar í stjórnmálunum er að halda utan um Grindvíkinga og halda utan um þetta áfall til að draga úr áhrifum þess. Og þegar minnst er á samstöðu þjóðar verður þingheimur að endurspegla þá samstöðu. Þegar við hér inni segjumst ætla að standa með Grindvíkingum og segjum í nafni þjóðar að þjóðin standi með þeim þá þarf verklag okkar hér inni að endurspegla þær yfirlýsingar. Þess vegna færi best á að leitast við að ná breiðri sátt á Alþingi um stuðning við Grindvíkinga, en til þess þyrfti fumlaus viðbrögð og pólitíska forystu í stjórnmálum.

Við höfum áður verið í þessari stöðu, forseti. Þótt eðli gossins í Heimaey hafi verið annað var áfallið ekki ósvipað. 5.000 manna bær þá, um 4.000 manns nú. Umfang kostnaður vegna gossins í Heimaey nam um 3,6% af landsframleiðslu ef litið er til rekstrargjalda og bóta í tengslum við gosið, en helmingur þeirrar upphæðar bættist síðan við í formi uppbyggingar húsnæðis. 3,6% af landsframleiðslu eru ígildi um 150 milljarða kr. í dag, ekki ósvipað þeim tölum sem hafa heyrst varðandi heildarmat í Grindavík.

Ég vek athygli á þessu, forseti, því að fólk verður að átta sig á að þetta er gerlegt og við höfum svo sannarlega gert þetta áður. Af þeirri reynslu má hins vegar læra og ýmislegt hefur strax verið gert þótt áfram megi bæta um betur. Má þar nefna t.d. leigu- og tekjustuðning sem ekki var til staðar á sínum tíma á meðan Eyjamenn biðu eftir húsnæðisúrræðum. Ég tel það einsýnt að hækka þurfi þau framlög sem hafa verið greidd vegna leigustuðnings til Grindvíkinga á meðan unnið er að næstu skrefum og ég bind vonir við að það verði gert hér á þinginu á næstu dögum.

En óháð útfærslu aðgerða þá skiptir formið líka máli. Það skiptir máli að Grindvíkingar og þjóðin sjái raunverulega samstöðu hér inni. Þess vegna tel ég að Alþingi ætti að sammælast allra fyrst um einföld grundvallaratriði varðandi stuðning við Grindvíkinga og því næst ætti að skipa þverpólitíska þingmannanefnd á þeim grunni til undirbúnings laga um framkvæmd og fjármögnun aðgerðanna. Ég hef komið þessari skoðun skýrt á framfæri við forystufólk ríkisstjórnarinnar og formenn annarra stjórnmálaflokka á Alþingi. Flokkar minni hlutans eru um þetta sammála, um þessa afstöðu, en svo virðist sem meirihlutaflokkarnir ætli sér að halda á þessum málum ein enn sem komið er, en það gæti þó breyst. Við teljum enn þá að það sé Grindvíkingum og landsmönnum öllum fyrir bestu að stuðningur við Grindvíkinga og mótvægisaðgerðir verði teknar út fyrir sviga hér á Alþingi til að hraða framkvæmd mála og til að tryggja breiða sátt, traust hér innan húss en ekki síst tiltrú Grindvíkinga og þjóðarinnar á að við getum leyst þetta í sameiningu, því að þetta mál, forseti, mun lifa þessa ríkisstjórn. Okkur ber skylda til að reyna að ná breiðri sátt á Alþingi um stuðninginn, fjármögnun og nauðsynlegar mótvægisaðgerðir.

Sex dögum eftir að eldgosið í Heimaey hófst árið 1973 samþykkti Alþingi þingsályktun um að skipuð yrði þverpólitísk þingmannanefnd til að gera tillögur um neyðarráðstafanir og fjármögnun þeirra. Tíu dögum síðar lagði nefndin fram lagafrumvarp um stofnun Viðlagasjóðs og þar náði Alþingi saman um fjögur skýr markmið sem unnið skyldi eftir í stuðningi við Vestmannaeyinga og fulla fjármögnun allra aðgerða. Ég teldi það æskilegt, og við í Samfylkingunni, að líta til þessa fordæmis og viðhafa sams konar vinnulag núna. Þannig mætti veita Grindvíkingum ró og fullvissu um samstöðu þjóðar og um leið gæfist svigrúm til að útfæra stuðninginn sem best til að lágmarka neikvæð þjóðhagsleg áhrif. Með þessari nálgun væri reynt að forðast óþarfaflokkadrætti um viðbrögð við náttúruhamförunum í Grindavík, enda er enginn bragur á pólitískum yfirboðum í svona viðkvæmu máli.

Forseti. Þrjú grundvallaratriði ættu að gilda um stuðninginn við Grindvíkinga eftir náttúruhamfarirnar í bænum að okkar mati. Í fyrsta lagi að kostnaður falli ekki á Grindvíkinga heldur verði borinn af þjóðinni allri sameiginlega. Í öðru lagi að neikvæð þjóðhagsleg áhrif verði lágmörkuð, svo sem áhrif á verðbólgu og húsnæðismarkað, og í þriðja lagi að reynt verði að ná breiðri sátt um útfærslu aðgerða og fjármögnun þeirra. Spurningin er ekki hvort við sem þjóð ráðum við að bera þennan kostnað, t.d. með uppkaupum á fasteignum Grindvíkinga, spurningin er hvernig við drögum úr neikvæðum hliðaráhrifum af þeim aðgerðum sem ráðist verður í vegna skaða sem nú þegar er skeður og hvernig við dreifum kostnaðinum. Ef kostnaðinum er ekki mætt með sérstakri fjármögnun fellur hann til í formi þenslu og verðbólgu sem magnar upp skaðann og ef ekki er gripið til mótvægisaðgerða á húsnæðismarkaði hefur það alvarlegar afleiðingar. Það er brýnt að stjórnmálamenn horfist í augu við þetta og skorist ekki undan eigin ábyrgð.

Forseti. Ég ítreka: Þetta mál mun lifa með okkur næstu misserin og mun lifa þessa ríkisstjórn. Gerum þetta saman og tryggjum samfellu í viðbrögðum, tryggjum öryggi Grindvíkinga og að vel sé á málum haldið því að þetta mál er stærra en stjórnmálin hérna inni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)