154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Staða mála varðandi Grindavík, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:03]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Sú jarðfræðilega atburðarás sem hófst í nágrenni Grindavíkur árið 2019 tók á sig öllu alvarlegri mynd í nóvember síðastliðnum með umfangsmiklum samfélagslegum afleiðingum sem langmest bitna á Grindvíkingum en hafa áhrif langt út fyrir Grindavíkurbæ. Mestu máli skiptir auðvitað fólkið í Grindavík og með fólkinu stöndum við öll. Þetta er nefnilega ekki bara jarðfræðileg atburðarás, þetta er líka samfélagsleg atburðarás.

Strax í nóvember síðastliðnum brást ríkisstjórnin hratt og örugglega við og Alþingi sömuleiðis greiddi götu þingmála og studdi allar aðgerðir sem lagðar voru til. Þar ber hæst frumvarp hæstv. forsætisráðherra um heimildir til handa hæstv. dómsmálaráðherra til að reisa varnargarða, frumvarp mitt um stuðning við greiðslu launa, frumvarp hæstv. innviðaráðherra um stuðning á leigumarkaði og þær fjárheimildir sem Alþingi samþykkti til kaupa á íbúðum í gegnum Leigufélagið Bríeti, svo eitthvað sé nefnt. Þá var opnuð miðstöð í Tollhúsinu í Reykjavík þar sem upplýsingar um alla helstu þjónustu má finna auk sálfélagslegs stuðnings. Einnig hefur mikil og góð vinna verið lögð í að tryggja börnum leikskóla- og grunnskólapláss. Margir aðilar leggja hér hönd á plóg og eiga miklar þakkir skildar og það er gott að finna samstöðuna í samfélaginu þegar hluti okkar þarf á margháttaðri aðstoð að halda.

Virðulegi forseti. Nú undir lok janúarmánaðar búum við enn við mikla jarðfræðilega óvissu og við munum halda áfram að búa við hana. Það er kannski mergurinn málsins að á sama tíma og við þurfum að byggja ákvarðanir okkar á vísindalegu og samfélagslegu mati munu ákvarðanir okkar einnig byggja á því að það er óvissa um hvaða áhrif jarðfræðilegir atburðir á næstu vikum, mánuðum og jafnvel árum og áratugum kunna að hafa á svæðið í Grindavík. Sú þekking sem felst í því að skilja eða virða að mikil óvissa sé til staðar er líka þekking sem horfa þarf til. Óvissan felst allt frá því að ekki verði fleiri atburðir á svæðinu upp í áframhaldandi jarðfræðilega virkni í mánuði og ár, virkni sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig muni líta út. Nákvæmlega þetta kristallaðist svo vel í því þegar í ljós kom að sprungur voru mun víðfeðmari og faldari en við höfðum áttað okkur á, nýr sigdalur myndaðist og gjósa tók alveg í jaðri byggðarinnar í Grindavík. Akkúrat þessar aðstæður sem nú hafa skapast eru án fordæma í byggð á Íslandi þannig að til viðbótar við að framlengja þær aðgerðir sem nú þegar hefur verið gripið til þarf nú að tryggja eignir Grindvíkinga og gera íbúum kleift að hefja nýtt líf annars staðar þó að fólk kunni að snúa aftur síðar ef aðstæður leyfa. Þetta er langstærsta verkefnið núna en það er eðlilegt að gefa sér tíma til að útfæra hvernig megi tryggja þessi markmið og ég finn að það er stuðningur við það hér á Alþingi. Út frá þessari breyttu stöðu þar sem jarðhræringar, eldsumbrot og jarðfræðileg óvissa ráða ríkjum er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nú að vinna að aðgerðum til aðstoðar Grindvíkingum, líkt og hæstv. forsætisráðherra greindi frá í munnlegri skýrslu sinni. Markmiðið er skýrt; að verja eignastöðu, afkomu og velferð íbúa Grindavíkur. Hér vil ég samt sem áður ítreka að við munum leitast við að tryggja að aðgerðir sem ráðist verður í hafi eins lítil áhrif á verðbólgu og húsnæðismarkað og unnt er þó svo að þau áhrif verði óhjákvæmilega einhver. Hér skiptir t.d. gríðarlegu máli að auka framboð á húsnæði, hvort heldur sem er að losa um íbúðir sem nýttar eru í skammtímaleigu, koma íbúðum í uppbyggingarferli aftur af stað, koma af stað framkvæmdum á fjölda byggingarhæfra lóða í eigu verktaka eða flytja inn einingahús sem gætu aukið framboð íbúða til muna.

Virðulegi forseti. Manni hlýnar um hjartaræturnar að finna samstöðuna hér á þingi. Höldum um hana, varðveitum hana og leiðarljós okkar á að vera það að um er að ræða samfélagslegt verkefni sem kallar á samvinnu og samstöðu okkar allra. Við berum öll byrðarnar saman af samfélagslegum verkefnum og áskorunum eins og nú þegar við ætlum áfram að taka utan um málefni Grindvíkinga af festu og öryggi með Grindvíkingum sjálfum og það mun okkur takast í sameiningu að gera.