154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

Staða mála varðandi Grindavík, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir þessi lokaorð, áfram Grindavík. Það hefur verið gott að fylgjast með þessari umræðu hér í dag og hlusta á þær ræður sem hér hafa verið fluttar. Ef ég má nefna nokkra þræði sem mér finnst hafa gengið í gegnum allar þær ræður þá er það mikilvægi þess að við verðum í þessu virka samtali við Grindvíkinga, bæði íbúa og sveitarstjórn, það er einurð í því að eiga hér samtal á milli flokka á Alþingi um að finna bestu lausnirnar og það er einbeittur vilji til að leysa úr þeim málum sem Grindvíkingar standa frammi fyrir. Ég ætla að fá að segja það að mér þykir vænt um að tilheyra slíku þingi. Þó að við getum nú rifist um mjög margt og mjög oft og stöndum í því svona utan þessa salar meira að segja líka þá finnur maður að hér er algjör samstaða um markmiðin. Hins vegar eigum við eftir að ræða okkur niður á endanlegar lausnir og útfærslur. Það er verkefni næstu daga, einhverjir vilja fara hraðar og ef það gengur hraðar þá er það bara gott. Þetta er hins vegar, eins og ég nefndi í mínu upphafsmáli, stór ákvörðun. Stærsta ákvörðunin er samt sú sem við höfum þegar tekið og það er að leysa Grindvíkinga undan skuldbindingum sínum þannig að þau geti hafið nýtt líf. Þá ákvörðun viljum við útfæra þannig að þau geti átt möguleika á að snúa aftur ef aðstæður leyfa. Það finnst mér vera stærsta ákvörðunin sem eftir stendur þennan dag. Síðan munum við takast á við útfærslurnar, leiðirnar og öll þau atriði sem koma upp og ég er ekki í nokkrum vafa um að við eigum eftir að leysa það sómasamlega og vel af hendi og hér verði fyrr en varir komið fram frumvarp sem ég vonast til að verði full samstaða um. Svo getum við haldið áfram að rífast um önnur málefni og gera það eins vel líka. Kærar þakkir.