154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

fjármögnun stuðnings við Grindvíkinga og mótvægisaðgerðir á húsnæðismarkaði.

. mál
[16:53]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Síðustu daga hefur málflutningur hæstv. ráðherra og stjórnarþingmanna um stuðning við Grindvíkinga verið nokkuð sundurleitur, því miður. En nú hefur ríkisstjórnin loksins stigið fram og sagt að ákveðið hafi verið að aflétta óvissunni fyrir Grindvíkinga. Í því hlýtur að felast að fjárhagslegur kostnaður falli ekki á Grindvíkinga heldur verði borinn af þjóðinni allri sameiginlega. Það er grundvallaratriði sem var nauðsynlegt að fá fram með formlegum hætti því að Grindvíkingar þurfa fullvissu um samstöðu þjóðar. Samfylkingin hefur sett fram þrjú grundvallaratriði sem við teljum að ættu að gilda um stuðning við Grindvíkinga eftir náttúruhamfarirnar í bænum. Í fyrsta lagi að kostnaður falli ekki á Grindvíkinga heldur verði borinn af þjóðinni allri sameiginlega. Í öðru lagi að neikvæð þjóðhagsleg áhrif verði lágmörkuð, svo sem áhrif á verðbólgu og húsnæðismarkað, og í þriðja lagi að reynt verði að ná breiðri sátt á Alþingi um útfærslu aðgerða og fjármögnun þeirra.

Forseti. Spurningin er ekki hvort við sem þjóð ráðum við að bera þennan kostnað, t.d. með uppkaupum á fasteignum Grindvíkinga, spurningin er hvernig við drögum úr neikvæðum hliðaráhrifum af þeim aðgerðum sem ráðist verður í vegna skaða sem nú þegar hefur skeð og hvernig við dreifum þeim kostnaði. Ef kostnaðinum er ekki mætt með sérstakri fjármögnun þá fellur hann til í formi þenslu og verðbólgu sem magnar upp skaða og ef ekki er gripið til mótvægisaðgerða í húsnæðismálum hefur það alvarlegar afleiðingar. Nú hefur ríkisstjórnin loks slegið því föstu að stutt verði við Grindvíkinga og það geti haft í för með sér greiðslur upp á tugi milljarða sem vænta má að leiti inn á húsnæðismarkaðinn. Óhjákvæmilegt er að slíkum greiðslum fylgi veruleg hliðaráhrif. Ég vil því spyrja: Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að þær aðgerðir verði fjármagnaðar og hvaða mótvægisaðgerðir verður ráðist í til að draga úr neikvæðum hliðaráhrifum á verðbólgu á húsnæðismarkaði?