154. löggjafarþing — 56. fundur,  22. jan. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í málum hælisleitenda.

[17:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta voru ágætishugleiðingar svo langt sem þær náðu. Ég get ekki sett út á neitt af því sem hæstv. ráðherra sagði og ágætt að hæstv. ráðherra skuli minna á athugasemdir formanns Sjálfstæðisflokksins um stöðu þessara mála, sem kalla auðvitað á skýringar frá ríkisstjórninni og ekki hvað síst ráðherra málaflokksins um hvort þetta sé vísbending um stefnubreytingu hjá stjórninni, því að þetta fæli í sér mjög verulega stefnubreytingu. Við höfum heyrt um nýja frumvarpið um lokuð búsetuúrræði með alls konar fyrirvörum en það breytir ekki heildarstöðunni. Það breytir ekki stöðu þessa málaflokks. Til þess mun þurfa algjöra endurskoðun útlendingalaganna sem illu heilli voru keyrð í gegnum þingið fyrir nokkrum árum og síðan hefur þessi málaflokkur verið stjórnlaus. Stendur til að endurskoða þennan málaflokk í heild sinni? Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi ásókn í fjölskyldusameiningar eða aðrar hælisumsóknir frá Gaza-svæðinu? Mun hún skera sig úr gagnvart öðrum Evrópulöndum og Norðurlöndunum ekki hvað síst og vera opnasta landið í Evrópu hvað það varðar eða er von á einhverri leiðsögn, einhverri stefnu í þeim efnum?