154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar það er mikið að gera og stór aðkallandi mál fanga hug okkar og hjörtu er líklegra en ekki að við gleymum öllum hinum málunum. Tími okkar og orka þessa dagana hefur farið í náttúruhamfarirnar í Grindavík þó svo að einhverjir ráðherrar hafi agnúast út í fólk sem tjaldar á Austurvelli eða mótmælir hvalveiðum. Staðreyndin er samt sú að það er hægt að gera fleira en eitt í einu. Við réttara sagt verðum að gera margt í einu, svo mörg eru verkefnin. Enn eitt verkefnið birtist landsmönnum í áramótaskaupi síðasta árs þegar Hemmi Gunn birtist á skjánum. Gervigreindartæknin er svo sannarlega komin til að vera. Í grein á Vísi kallar Pétur Eggerz Pétursson hjá Overtune, sem er maðurinn á bak við Hemma Gunn-atriðið í áramótaskaupinu, eftir því að löggjafinn setji upp hanskana því framtíðin sé mætt. Framtíðinni er nefnilega slétt sama um hraðatakmarkanir stjórnmálanna sem drolla með öll verkefni árum saman, henda þeim milli nefnda og starfshópa fram og til baka á meðan hlutirnir eru bara að gerast. Í Bretlandi birtist fölsuð hljóðupptaka af formanni Verkamannaflokksins þar sem hann heyrist skammast út í starfsfólk flokksins annars vegar og hins vegar gagnrýna Liverpool-borg — hvort tveggja skáldað. Hinum megin Atlantshafsins heyrist rödd Biden hvetja kjósendur í New Hampshire til að taka ekki þátt í forvali Demókrataflokksins — skáldað. Tækifærin í tækninni eru gríðarlega spennandi en hætturnar eru það líka. En til þess að bregðast við kallinu hef ég sent frumvarp um gervigreindarfólk og sjálfvirka gagnagreiningu í meðflutningsferli til allra þingmanna með von um jákvæð viðbrögð. Það þarf nefnilega bara að bregðast við. Við eigum ekki að bíða eftir ESB eða starfshópum og nefndum. Við þurfum að gera það skýrt að endurgerð af einstaklingi sem má ætla að sé raunveruleg, hvort sem um er að ræða mynd, myndband, hljóðupptöku eða annað efni, sé óheimil án samþykkis viðkomandi einstaklings eða afkomenda hans ef viðkomandi er látinn. Við þurfum að bregðast við þessu strax.