154. löggjafarþing — 57. fundur,  23. jan. 2024.

Umhverfis- og orkustofnun.

585. mál
[15:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra að umhverfis- og samgöngunefnd þurfti að klára fyrir áramót ansi viðamikið frumvarp um uppfærslu á ETS-kerfinu t.d. Það varð að klárast fyrir áramót ef ekki ætti að setja íslenskan flugiðnað á hliðina eins og stjórnarliðar lýstu því. Það mál kom líka seint til þingsins. Ég ætla bara að biðja hæstv. ráðherra að hætta að benda á stjórnarandstöðuna sem einhverja afsökun fyrir því að mál klárist ekki á þessum tímapunkti. Þetta er samtal sem hæstv. ráðherra þarf að eiga við sitt fólk og sjálfan sig. Hann þarf að eiga samtal við sjálfan sig um að koma með mál tímanlega til þingsins, við framsögumenn mála, sem eru í því tilviki sem við ræðum hér í sama flokki og hæstv. ráðherra, eða bara forystu nefndarinnar. Allt eru þetta stjórnarliðar sem bera ábyrgð á framgangi þeirra mála sem ráðherra gerði betur að hætta að væla undan stjórnarandstöðunni að næðu ekki fram að ganga.