154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

útflutningsleki til Rússlands.

529. mál
[15:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar tæp tvö ár eru liðin frá innrás Rússa í Úkraínu er mikilvægt að við, vinir Úkraínu, herðum samstöðuna og missum ekki sjónar á markmiðinu. Það hafa verið sár vonbrigði á þessum tíma að heyra fréttir af því hvernig sumar ESB-þjóðir hafa notað glufur í viðskiptaþvingunum ESB, t.d. til þess að selja Rússum vopn. Þar fóru forysturíkin Þýskaland og Frakkland fremst í flokki. Það hefur líka tekið allt of langan tíma að herða refsiaðgerðirnar hverju sinni, eins og það hefur tekið allt of langan tíma að senda Úkraínumönnum vopn sem þá vantar sárlega. Nýlegur fréttaflutningur beinir síðan sjónum að sprengingu í útflutningi ESB til nágrannalanda Rússlands. Þannig hafa Rússar getað nálgast varning frá sambandinu þrátt fyrir refsiaðgerðirnar. Því legg ég þessar spurningar fyrir hæstv. utanríkisráðherra; hvort honum sé kunnugt um að Rússar hafi komist yfir vörur sem sæta útflutningsbanni til Rússlands í gegnum milliliði í öðrum ríkjum og í trássi við þvingunaraðgerðir ESB gegn Rússlandi, og þá hvert sé umfang lekans, og hins vegar hvort útflutningur frá Íslandi til ríkja Mið-Asíu og Kákasus hafi aukist samhliða innleiðingu þvingunaraðgerða gagnvart Rússlandi, og þá sundurliðun á aukningunni sé hún einhver.