154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

útflutningsleki til Rússlands.

529. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Diljá Mist Einarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hv. þingmanni sem lagði til umræðunnar. Ég hef komið margsinnis hingað upp og gagnrýnt glæfralega stefnu ESB gagnvart Rússlandi, sem gerði álfuna hreinlega háða rússneskri orku, og það hvernig Evrópa hefur fjármagnað stríðsrekstur Pútíns með olíu- og gaskaupum. Það er nefnilega fullkomlega óásættanlegt að aðgerðir okkar bandamanna séu bara í orði en séu ekki sýndar í verki. Evrópskir leiðtogar geta ekki notað stríðið til að skreyta sig með innihaldslausum frösum. Við getum ekki sætt okkur við annað en fulla samstöðu og sameiginlegar fórnir til að verja sameiginleg gildi okkar. Ef við erum að ræða þetta hér í okkar þingi vegna erlendra frétta er ráðamönnum í ESB fullkunnugt um þessi athæfi og það hvernig þau líta út. Það er þó jákvætt að sjá það og heyra frá hæstv. utanríkisráðherra að við virðumst vera að standa okkur í stykkinu. Það er heldur ekki í fyrsta sinn. Þegar við leituðum til Evrópusambandsins um samstöðuaðgerðir þegar Rússarnir létu okkur taka höggið vegna eldri refsiaðgerða þá varð nú fátt um svör og samstöðu. Það fer minna fyrir því um þessar mundir, sem betur fer, en hér fyrirfinnast samt enn þá einhverjir sem ræða það í fullri alvöru að við göngum í Evrópusambandið. Mér finnst þessi umræða síst hjálpa þeim málflutningi og vonandi hættir hann bara alfarið.