154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

framfylgd reglna um rafhlaupahjól.

321. mál
[16:41]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málefnalega umræðu um þetta. Ég held að við séum öll sammála um að þessi tæki eru frábær viðbót í ferðamáta og möguleika á að fara á milli staða en um leið eru þau stórhættuleg eins og hér hefur komið fram. Því miður er slysatíðni á þeim allt of há og ekki síst hjá ungmennum og hjá fólki eftir kl. 11 á föstudögum og laugardögum.

Þetta var tekið upp á sameiginlegum fundi norrænna samgönguráðherra núna í sumar sem var haldinn hér á Íslandi í mínu í boði og voru þessi mál krufin til mergjar. Þau eru ólík á Norðurlöndunum enda hafa Norðurlöndin farið ólíkar leiðir í regluverkinu. Þar hafa menn verið að bregðast við og við getum lært ýmislegt af þeim og því sem þar er verið að gera. Það er frumvarp á leiðinni til þingsins sem kemur hér vonandi í febrúar þar sem er tekið á fleiri þáttum er varða þetta. Það er frumvarp sem var að hluta til hér í þinginu líklega í fyrra, en við lögðumst aðeins betur yfir það, sem varðar umferðarlögin. Síðan vil ég taka undir og segja hvað það er mikilvægt að sveitarfélögin taki þátt í þessari umræðu. Þau geta svo sannarlega með sínum samþykktum og ákvörðunum takmarkað og breytt talsvert notkuninni. En svo þarf bara samtal við notendurna. Þeir verða að átta sig á því að þetta eru hættuleg tæki og ef það er ekki gengið um þau af virðingu við aðra vegfarendur geta þau einfaldlega verið stórhættuleg fyrir allt og alla, eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir fór hér vel yfir. Ég þakka umræðuna.