154. löggjafarþing — 58. fundur,  24. jan. 2024.

hlaðvarpsgerð Ríkisútvarpsins.

528. mál
[17:20]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Já, það eru sannmæli, ég ætla að gera stutta athugasemd. Það tók mig svolítinn tíma að fatta hvað þessi hlaðvörp voru vegna þess að ég skildi aldrei muninn á þeim og útvarpsþáttum þegar þau voru að byrja nema það var hægt að nálgast þau á hvaða tíma sem var í gegnum netið. Ég held nú reyndar úti einu slíku sjálfu núna þannig að ég hef tekið þau í sátt. En hlaðvörp eru í grunninn bara dagskrárgerð og þeim er miðlað á netinu eins og raunar allri dagskrá Ríkisútvarpsins um þessar mundir og flestra fjölmiðla þannig að ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi greinarmunur sem gerður er á hlaðvörpum annars vegar og hefðbundinni dagskrárgerð Ríkisútvarpsins hins vegar, sem það hefur sannarlega heimild fyrir í lögum og raunar skyldur til að sinna, vera skrýtinn.