154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

styrking tilfærslukerfa og kjarasamningar.

[13:34]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Verkalýðshreyfingin vill sterkara velferðarkerfi, það er áhersla númer eitt, tvö og þrjú núna, sem segir sitt um stöðuna. Breiðfylking stéttarfélaga í ASÍ hefur sett fram ábyrgar tillögur, sem þarf að fjármagna, um hófsamar launahækkanir til að ná tökum á vöxtum og verðbólgu en forsenda þess er að ríkisstjórnin taki sig á og ráðist í raunverulega styrkingu á tilfærslukerfum heimilanna. Nú má fagna nýjum verðbólgutölum frá því í morgun en staðan er samt sem áður sú að verðbólga hefur ekki farið undir 6% í heil tvö ár og hefur verið yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka í tæp fjögur ár. Síðustu daga höfum við í Samfylkingunni átt fundi með forystufólki stærstu stéttarfélaga á almenna markaðnum og á sama tíma erum við að heimsækja 100 fyrirtæki hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég leyfi mér að fullyrða, frú forseti, að alls staðar hefur fólk skilning á því að þessi tilfærslukerfi; vaxtabætur, barnabætur, húsnæðisbætur, geta gegnt lykilhlutverki við að stuðla að stöðugleika með því að draga úr þörf á almennum launahækkunum. Samfylkingin styður þá grundvallarnálgun sem breiðfylking í ASÍ hefur sett fram til þess að taka á vöxtum og verðbólgu. En það eru ekki nema nokkrar vikur síðan þingmenn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felldu allar okkar tillögur hér á Alþingi um að fara nákvæmlega þessa leið. Þvert á móti voru öll þessi kerfi veikt og þau rýrnuðu að raunvirði milli ára.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hefur eitthvað breyst síðan þá varðandi pólitískan vilja ríkisstjórnarinnar til að styrkja tilfærslukerfin? Ætti frumkvæðið og festan í stjórn velferðarmála ekki að koma frá ríkisstjórninni sjálfri í staðinn fyrir að velferðarpólitíkin sé knúin áfram af kjarasamningslotum?