154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

styrking tilfærslukerfa og kjarasamningar.

[13:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á það sem ég kom að í mínu fyrra svari: Mér finnst eðlilegt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar byggist á þeirri vinnu sem hefur verið lagt í á vettvangi þjóðhagsráðs.

Hv. þingmaður ræðir hér umönnunarbilið. Við erum með skýrslu sem við höfum látið vinna á þeim vettvangi með aðkomu aðila vinnumarkaðarins sem sýnir hvernig sérstaklega konur hrynja í tekjum eftir barneignir vegna þessa umönnunarbils. Það er óréttlæti sem mér finnst að við, ríki og sveitarfélög, eigum að leggja okkar af mörkum til að leiðrétta því að það hefur áhrif langt fram í tímann, miklu lengra en það eina ár sem fólk er mögulega í óvissu með þessi mál. Við tökum að sjálfsögðu þær tillögur sem fram hafa komið, rétt eins og við erum að funda með heildarsamtökum opinberra starfsmanna og vinnum að sjálfsögðu líka út frá heildarstöðu efnahagsmála. Að sjálfsögðu hljótum við að gera það. Það breytir því ekki að markmið okkar er algerlega skýrt. Við erum reiðubúin að greiða fyrir kjarasamningum náist saman um langtímasamninga sem geta hjálpað til við að stuðla að verðstöðugleika og forsendum fyrir lækkun vaxta og ég vona svo sannarlega að aðilar muni ná saman um slíka samninga.