154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðistjórn grásleppu .

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Það er nú líklegt að spurningunni sé kannski beint til mín sem formanns Vinstri grænna því að ég hlýt að koma því að hér vegna fyrirspurnar hv. þm. Ingu Sæland að frumvarpið sem hún vísar til hér um veiðistjórn grásleppu er flutt af meiri hluta atvinnuveganefndar en ekki matvælaráðherra. (IngS: Ég sagði …) Það er meiri hluti atvinnuveganefndar sem ákveðið hefur, eins og fram kemur í greinargerð með málinu, að flytja frumvarp sem byggist á áður fluttu frumvarpi matvælaráðherra með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar hafði áður lagt til.

Nú er það svo að lengi hafa þessi mál verið til umræðu, þ.e. veiðistjórn grásleppu og hvernig eigi að tryggja betur þá veiðistjórn. Þetta er ein leið sem hér er lögð til.

Hv. þingmaður spyr hvort hæstv. ráðherra hafi horfið frá frumvarpinu vegna ólgu í grasrót. Nei, það myndi ég ekki segja. Sjávarútvegsstefna okkar er óbreytt og við höfum lengi barist fyrir því að fá ákvæði inn í stjórnarskrá lýðveldisins sem kveður á um þjóðareign á auðlindum. Ég vona svo sannarlega að hv. þingmaður og ég getum náð saman um slíkt ákvæði því að nú hef ég boðað til fundar á föstudag þar sem ég mun ræða stjórnarskrárbreytingar. Það er auðvitað undirstaðan fyrir öllu því sem á eftir kemur.

Hæstv. matvælaráðherra, sem er fjarverandi núna, hefur svo verið að vinna að heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu sem ég vona svo sannarlega að við fáum tækifæri til að ræða hér í þessum sal. En hvað varðar þetta frumvarp þá er það bara meiri hluti atvinnuveganefndar sem hefur ákveðið að flytja það hér, spurði mig ekki sérstaks leyfis um það og þingið fær þá tækifæri til að taka afstöðu til þess.