154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

veiðistjórn grásleppu .

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að ég þekki grasrót minnar eigin hreyfingar ágætlega. Vissulega hafa verið uppi mjög skiptar skoðanir um sjávarútvegsmálin og fiskveiðistjórnarkerfið en það sem flestir virðast hafa verið sammála um er að núverandi staða hafi einfaldlega ekki verið nógu góð. Á það hefur líka verið bent að í því frumvarpi sem hæstv. matvælaráðherra lagði hér fram síðast var lagt til að það yrðu takmarkanir á framsali hlutdeildar grásleppu á milli landsvæða og það yrðu mjög þröng mörk sett á þá samþjöppun, ásamt því að búa til möguleika fyrir nýliðun. Þannig að ég held að það væri gagnlegra að ræða þessi efnisatriði og koma þá með aðrar tillögur að því hvernig betur megi standa að veiðistjórn grásleppu fremur en að koma hér með órökstuddar fullyrðingar um grasrót minnar hreyfingar. Ég held að það sé bara jákvætt að þetta mál komist á dagskrá og við getum þá fengið líka aðrar tillögur til úrbóta í þessum efnum.