154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

frysting greiðslna ti UNRWA og aðstoð við aðrar stofnanir.

[14:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Nú ætla ég að reyna að spyrja hæstv. forsætisráðherra skýrra spurninga í von um að fá skýr svör. Ég þarf ekki að heyra að ríkisstjórnin sé meðvituð um hitt eða þetta eða að Vinstri grænir ætli að taka einhverjum málum alvarlega, svona eins og þeir gera með úrskurði umboðsmanns Alþingis. Í tilraun til að fá skýr svör hef ég númerað spurningarnar, herra forseti. (Forsrh.: Flott.)

1: Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um að Þýskaland, Bandaríkin, Ítalía, Austurríki, Finnland, Kanada, Ástralía, Japan, Frakkland, Eistland, Lettland, Litáen, Holland, Sviss, Nýja-Sjáland, Rúmenía, Bretland og Evrópusambandið hafi ákveðið að frysta fjármagn til UNRWA? Eru þetta réttar ákvarðanir hjá þessum löndum eða rangar að mati hæstv. ráðherra?

2: Gæti ekki verið ráð að beina framlögum Íslands í millitíðinni til annarra stofnana, t.d. Matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna? Vandi UNRWA er svo víðtækur og djúpur að það mun taka langan tíma að rannsaka hvað gengið hefur þar á. Vísbendingarnar eru of margar um að þar hafi fjármagn ekki nýst fyrir þá sem eru í mestri neyð. Er ástæða til að bíða eftir niðurstöðu þeirrar rannsóknar? Er ekki frekar ástæða til að reyna að koma aðstoð til fólksins sem er í neyð með öðrum hætti, eða t.d. með því að Ísland keypt lyf og sendi á staðinn?

3: Væri ekki ráð fyrir okkur að huga að því að stofna einfaldlega ný hjálparsamtök með Norðurlöndunum, að Norðurlöndin sameinuðust um að útdeila og koma til skila sinni neyðaraðstoð? Við getum kallað þetta NorAid, svona sem vinnuheiti. Meginmarkmiðið væri að aðstoðin skilaði sér til þeirra sem eru raunverulega í neyð (Forseti hringir.) því að það hafa verið of mikil brögð að öðru.