154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

Frysting greiðslna til UNRWA og aðstoð við aðrar stofnanir SÞ.

[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnirnar, hann númeraði aðallega þá fyrstu, en ég mun gera mitt besta til að svara þeim. Eins og ég fór yfir áðan í svari mínu við hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur þá liggur það fyrir að við viljum áfram styðja við mannúðaraðstoð á Gaza. Utanríkisráðherra gerði grein fyrir því fyrr í dag að hann til að mynda hefði ákveðið að setja viðbótarframlag til Rauða krossins sem og inn í Alþjóðabankann sem vinnur nú að sérstöku verkefni um uppbyggingu innviða í Palestínu og á Gaza, sem er auðvitað flókið meðan staða mannúðarmála er með þeim hætti sem hún er, sem sagt algerlega skelfileg. Það liggur líka fyrir að þessi ríki sem hv. þingmaður taldi upp eru sum hver að skipta upp sínum framlögum, þau eru ýmist með kjarnaframlög eða framtíðarframlög eða þróunarframlög. Í okkar tilviki liggur fyrir, varðandi þetta kjarnaframlag upp á 110 milljónir, að við erum að óska skýringa á því hvernig sú stofnun sem hér um ræðir hyggst takast á við sín innri málefni áður en sú greiðsla verður innt af hendi. Ég vil líka vekja athygli hv. þingmanns á því að almennt hafa ríki ekki verið með mjög stórar yfirlýsingar í þessu máli. Það liggur fyrir að stjórnvöld þeirra ríkja sem hv. þingmaður taldi hér upp leggja á það áherslu að fá mjög skýr svör um það hvernig þessi stofnun hyggst taka á málum. En það er ekki þar með sagt að stjórnvöld séu að aflýsa mannúðaraðstoð á Gaza hringinn í kringum heiminn. Það er ekki svo og það á svo sannarlega ekki við um íslensk stjórnvöld.

Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt að stóra verkefnið er auðvitað að koma á friði á svæðinu, vinna að lausn gísla, ná varanlegum friðarsamningum, varanlegu vopnahléi. Því miður lítur það enn ekki vel út en það er auðvitað stóra verkefnið því þetta er algerlega skelfileg staða sem er þarna á svæðinu.