154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

mat á menntun innflytjenda og atvinnuþátttaka þeirra.

[14:12]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Mig langar að byrja á að benda á það að í þeirri umfangsmiklu vinnu sem núna stendur yfir í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, í víðtæku samráði úti í samfélaginu, við að gera fyrstu stefnu Íslands í málefnum innflytjenda höfum við fengið OECD til liðs við okkur til að nálgast m.a. það viðfangsefni sem hv. þingmaður kemur hér inn á. Þau hafa tekið saman að um 42% innflytjenda hér á landi vinna störf sem ekki krefjast sérstakrar menntunar þrátt fyrir að hlutfall þeirra innflytjenda sem hér búa og ekki hafa lokið sértækri menntun sé 17%. Stofnunin hefur einnig greint frá því að menntunarstig innlendra og innflytjenda á Íslandi sé áþekkt og ekki er marktækur munur á menntunarstigi þeirra sem koma utan EES og innan EES. Þetta eru áhugaverðar tölur í þessu samhengi.

Mat á námi innflytjenda heyrir má segja undir þrjú ráðuneyti, þ.e. heilbrigðisráðuneytið hvað varðar starfsleyfi fyrir heilbrigðisstéttir; háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti varðandi lögvarin starfsréttindi iðngreina; og mennta- og barnamálaráðuneytið varðandi starfsleyfi fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Afleiðingarnar á sviði inngildingar koma þá að ráðuneytinu hjá mér og Vinnumálastofnun sem í sumum tilfellum getur í rauninni ekki fundið störf við hæfi fyrir fólk, þegar um er að ræða aðstoð við það, þar sem starfsréttindin eru ekki viðurkennd. Eitt af vandamálunum er það að við erum ekki með eitt samræmt kerfi eða gátt sem viðkomandi innflytjandi getur leitað í til að fá menntun sína metna. Þess vegna eru leiðirnar ólíkar milli greina, hvernig staðið er að því að meta þetta, óháð því undir hvaða ráðuneyti þau mál síðan að endingu heyra.