154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna.

13. mál
[18:16]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir framsögu hans með þessu ágæta frumvarpi sem mælt er fyrir. Þarna er komið inn á ýmis mál sem til úrbóta gætu verið. Kannski ber fyrst að nefna þá staðreynd að þær upphæðir sem námsmönnum er gert að lifa á eru engan veginn í takt við þá framfærslu sem er raunverulega í þessu samfélagi. Þannig hefur það verið lengi, sem hefur auðvitað afleiðingar því að það verður til þess, eins og hv. þingmaður kom ágætlega inn á áðan, að sífellt fleiri námsmenn kjósa að vinna með námi, sem er íþyngjandi. Þarna er líka komið inn á það að það getur verið mjög stressandi fyrir námsmenn sem reiða sig á námslán til framfærslu sinnar og jafnvel sinnar fjölskyldu að eiga von á því að fá þau ekki ef illa gengur í einhverju einu prófi, ef þeir eru illa fyrir kallaðir af einhverjum ástæðum — við þekkjum það að ýmsar ástæður geta legið þar að baki — og þá fari öll þeirra fjármál upp í loft. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag og mér sýnist að það sem hér er verið að stinga upp á geti verið til bóta í þeim efnum.

Menntasjóður námsmanna, sem lengi hét Lánasjóður íslenskra námsmanna, er merkileg stofnun í íslensku samfélagi og mikilvæg og hefur gert mörgum kleift að kljúfa það að mennta sig við góða háskóla víða um heim og komast í gegnum háskólanám þrátt fyrir takmörkuð efni. Hlutverk þessa sjóðs verður því seint ofmetið þegar kemur að því að tryggja jöfnuð í samfélaginu, jöfnuð til að ná sér í þá menntun sem hugurinn stendur til. Mér hefur stundum, herra forseti, fundist svolítið vanta upp á þá hugsun um þennan sjóð að hann sé fyrst og fremst félagslegt jöfnunartæki og hefur fundist gæta í dálítinn tíma þeirrar hugsunar að þetta sé bara sjóður á einhverjum markaði og honum beri að standa undir sér o.s.frv. Gott og blessað, það kann að vera að lögin og umgjörðin í kringum sjóðinn séu með þeim hætti að þeim sem þar ráða för finnist það mikilvægast í þeirra störfum en fjárfestingin sem felst í menntuninni sem borgarar þessa lands ná sér í með tilstuðlan þessa sjóðs er auðvitað það sem við erum að vinna að og það sem sjóðurinn var stofnaður til að gera. Hann er sem slíkur ein af mikilvægu stofnunum í þessu landi til að við búum hér við jöfnuð og jöfn tækifæri. Hann á ekki að verða þannig að hann flæki fólk í skuldafen ævina á enda. Mín skoðun er sú og ég lýsi henni hér að þótt ég viti að námslánin fyrnist við andlát finnst mér að þau ættu að fyrnast fyrr. Við sjáum að t.d. í Bandaríkjunum er núna verið að vinna að því að strika út gamlar námslánaskuldir og það er vegna þess að stjórnvöld þar sjá að námslán eru góð fjárfesting í fólki, í samfélaginu og í jöfnuði. Mér finnst að sú hugsun þurfi að komast meira inn í umræðuna um Menntasjóð námsmanna og að til framtíðar verði hann það sem hann á að vera; jöfnunartæki.

Annað mál sem snertir þetta er það að stundum kýs fólk að mennta sig við eitthvað en ákveður síðan af einhverjum ástæðum að vinna ekki við það. Það kann að vera að fólk hafi menntað sig til starfa sem gætu jafnvel verið í háum tekjuflokki en kjósi síðan að starfa við eitthvað allt annað vegna þess að þegar á hólminn er komið stóð hugur þess til annars. Þá er að mínu mati nauðsynlegt að taka tillit til þess að lífið getur breyst og aðstæður fólks, og horfa til þess að fólk er alls konar.

Virðulegur forseti. Eins og áður segir þá vona ég að þetta ágæta mál, sem mér fannst vandlega rökstutt af hv. þm. Gísla Rafn Ólafssyni áðan, fái framgang og njóti hljómgrunns hér á Alþingi Íslendinga.