154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

breyting á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna.

13. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Mig langaði í seinna andsvarinu að spyrja um tvo hluti. Í fyrsta lagi hefur mikið verið í umræðunni að undanförnu hvort ekki sé hægt að nýta Menntasjóðinn einnig sem nokkurs konar byggðastefnutól, ef svo mætti kalla, þ.e. t.d. að fella niður námslán hjá heilbrigðisstarfsfólki sem ákveður að starfa úti á landi þar sem mikill skortur er á fólki. Ég heyrði líka bara góða hugmynd á fundi atvinnuveganefndar í morgun þar sem var lagt til að ungir bændur fengju t.d. niðurfellingu námslána í hlutfalli við það að fara í bændastéttina. Það er svona hið fyrra, þ.e. hvað hv. þingmanni finnst um að nýta þetta á slíkan máta.

Hitt sem mig langaði að spyrja hv. þingmann út í er einmitt það sem hv. þingmaður nefndi, þetta með fyrninguna á námslánunum þegar einhver deyr. Ég er reyndar ekki alveg viss um að þau fyrnist endilega í dag. Það er líka kominn mjög skrýtinn mekanismi þegar viðkomandi verður 65 ára. Þá er allt lánið gjaldfellt og þú þarft að gera samning um afgang af greiðslunum þangað til yfir lýkur. Hér áður fyrr var það hins vegar þannig að þegar þú komst á ellilaun eða eitthvað slíkt þá var það fyrnt en í dag er það þannig að þú bara færð bara stóran, feitan reikning við 65 eða 66 ára aldurinn og þarft að semja um það. Hvað finnst hv. þingmanni um þessa harðari stefnu í innheimtu? Það er þetta tvennt; byggðastefna og harðari stefna.