154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.

17. mál
[18:38]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen fyrir þessa þingsályktunartillögu og það að hafa fengið að vera með á henni. Ég held að það sýni dálítið vel hversu mikilvægt þetta mál er hversu margir þingmenn eru með á þessu og úr hversu mörgum flokkum þeir koma.

Sjálfsvíg eru faraldur sem fer mjög hljótt. Það er ákveðin skömm í því þegar einhver úr fjölskyldunni fremur sjálfsvíg og það er ekki talað um það. Við tölum oft um það ef einhver deyr vegna krabbameins eða hjartasjúkdóma eða hás aldurs en það er oft talað um að einhver hafi látist langt fyrir aldur fram þegar slíkt gerist. Það er mikilvægt að átta sig líka á því að andlátin eru mörg en tilraunirnar eru miklu, miklu fleiri. Það eru mjög fáir sem átta sig á því í rauninni hversu oft fólk er að reyna að fremja sjálfsvíg. Við sem höfum verið í björgunarsveitunum um áratugaskeið höfum farið í tugi ef ekki hundruð slíkra útkalla, að leita að fólki sem er í sjálfsvígshugleiðingum. Þetta eru útköllin sem við tölum aldrei um. Þetta eru útköllin sem fara ekki í fréttirnar.

Það er líka mikilvægt að átta sig á því að þetta er líka mikill faraldur hjá ungu fólki. Kröfurnar sem eru settar á ungt fólk í dag um alls konar hluti gera það að verkum að oft leita þau í þessa átt, til að losna t.d. við sársaukann eftir einelti. Það er fjallað hér um hinar ýmsu orsakir. Þegar ég var að tala við aðstandendur ungs fólk sem við vorum að leita að voru mjög oft miklar, erfiðar, slæmar sögur um einelti. Ég hef oft sagt það að stundum skildi ég ekki einelti þrátt fyrir að hafa verið lagður mikið í einelti sjálfur. Það var t.d. mjög falleg ung stúlka sem við leituðum einu sinni að, hún hafði verið lögð í einelti og hún trúði því sem var sagt við hana, að hún væri ljót. Þetta var gullfalleg stúlka sem hefði unnið hvaða fegurðarsamkeppni sem er en það var búið að ráðast þannig á hana sálrænt að hún taldi sig hafa betri leiðir út. Þetta er hlutur sem virkilega þarf að leggja mikla vinnu í.

Hv. þingmaður nefndi líka áhrifin á aðstandendurna. Mágkona mín, Anna Margrét Bjarnadóttir, skrifaði bók sem heitir Tómið eftir sjálfsvíg sem eru viðtöl við aðstandendur og það er ótrúlegt að sjá hvernig áhrif eitt sjálfsvíg getur haft á tugi ef ekki 100 einstaklinga sem þeim tengjast.

Ég styð heils hugar að lögð sé mikil vinna í að gera þessa rannsókn. Ég held að það þurfi samt að gera eina breytingu áður en þessi þingsályktunartillaga verður samþykkt. 1. maí er kannski einum of snemma vegna þess hversu langan tíma hefur tekið að fá þetta í gegnum þingið. En það er von mín að sú nefnd sem þetta fær taki þetta hratt og auðveldlega og ég treysti því að formaður þingflokks Framsóknarflokksins tryggi að þetta fari ekki í einhverjar samningaviðræður heldur fari bara strax í gegn.