154. löggjafarþing — 60. fundur,  30. jan. 2024.

rannsókn á orsakaferli í kjölfar sjálfsvígs.

17. mál
[18:43]
Horfa

Flm. (Ingibjörg Isaksen) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir ræðuna og stuðning við þetta mál. Það er alveg rétt hjá honum að mér þótti mjög vænt um hversu margir þingmenn skráðu sig á málið því til stuðnings og einmitt þvert á flokka. Ég held að meiri hluti flokka hér á þingi sé á þessu máli sem er mikið fagnaðarefni. Ég tek undir það með honum að ég bind vonir við að þetta mál nái fram að ganga og við getum líka bara öll lagst á eitt með það því þetta á ekki að vera pólitískt mál, þetta er samfélagslegt mál og við erum öll hér á þingi einmitt til þess að gera gott fyrir okkar samfélag.

En það er einmitt sláandi að síðastliðna tvo áratugi hefur fjöldi sjálfsvíga á ári ekki breyst. Hann hefur verið að meðaltali í kringum 40 sem er bara allt, allt of há tala og þar eru ekki taldar með sjálfsvígstilraunir. Með því að fara í þessar greiningar og kalla fram þessar upplýsingar og athuga hvort við getum séð einhvers konar mynstur, til að geta einmitt einbeitt og í rauninni beint okkar forvörnum frekar og skýrar að vissum þáttum, getum gripið þessa áhættuhópa, þá getum við vonandi komið í veg fyrir það að einhverjir taki þessa skelfilegu ákvörðun en líka einmitt aðstoðað aðstandendur sem sitja eftir sárir og með alls kyns spurningar varðandi af hverju viðkomandi tók þessa skelfilegu ákvörðun.

Ég tók eftir þessu sjálf þegar ég flutti þessa ræðu og við undirbúninginn að þetta er skammur fyrirvari þannig að ég geri ráð fyrir því að þessu verði breytt í nefndinni og vona einmitt að aðilar sendi inn umsagnir til að gera þetta mál jafnvel bara enn betra.