154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, afurðastöðvar í kjötiðnaði. Þetta mál hefur verið lagt fram í fimm skipti og þetta er í sjötta skipti sem það kemur á dagskrá þingsins. Þetta mál hefur því verið rætt töluvert og ég vil vekja athygli á því að þessu máli sem við ræðum í dag svipar þó nokkuð til máls hæstv. matvælaráðherra sem er nú til umfjöllunar í atvinnuveganefnd. Að vísu eru þau ekki eins en aftur á móti er tilgangurinn í þá átt að afurðastöðvum í kjötiðnaði verði veitt ákveðin heimild til samstarfs og samvinnu, jafnvel samruna. Samruna í þessu tilfelli en í hinu frumvarpinu, sem við erum með til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, er ekki svo. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að reyna að koma til móts við þær breytingar sem hafa átt sér stað undanfarin misseri við framleiðslu á landbúnaðarvörum. Við þekkjum vel til þeirrar sögu og þeirra breytinga sem orðið hafa á framleiðslu og úrvinnslu landbúnaðarafurða og það breytta landslag sem framleiðslan hefur staðið frammi fyrir.

Árið 1980 voru hér um milljón vetrarfóðraðar kindur og ég ætla að leyfa mér það, frú forseti, að segja að því betur hefur þeim fækkað því að engan veginn þoldi landið þann umgang og ágang sem þar var uppi. Í dag er öldin önnur og sauðfé hefur fækkað allverulega. Á tíu árum hefur sauðfé fækkað úr 480.000 í rétt um 380.000 og því sjáum við þær breytingar sem orðið hafa. Það er ekki langt síðan hér voru starfandi um 18 sauðfjársláturhús, í dag eru þau sjö og nýtingin er svona 60% nýting hjá þeim sláturhúsum sem eru slátra sauðfé og vinna með þær afurðir. Í nautgriparækt er áætlað að sé um 30% nýting á eðlilegri framleiðslu hjá þeim afurðastöðvum sem eru að slátra nautgripum. Svona gæti ég lengi haldið áfram.

Því er alveg ljóst að við þurfum að bæta úr. Við þurfum að heimila ákveðna samvinnu, ákveðinn samruna. Ekki er eingöngu verið að horfa til þess að bændur njóti ávinnings af því heldur er að sjálfsögðu verið að horfa til þess að neytandinn sömuleiðis njóti góðs af því. Við lifum í heimi sem er mjög breytilegur. Það hafa orðið miklar breytingar á því tollaumhverfi sem starfað er við hér á landi. Það er tiltölulega einfalt mál að flytja inn afurðir, kjötafurðir, og nýlegt dæmi þess efnis er útboð á tollkvótum í nautakjöti þar sem 1 kr. var verðið sem greitt var fyrir hvert kíló. Það segir sig sjálft að þegar verið er að keppa við stóra risa erlendis, við getum tekið stórt fyrirtæki í Danmörku sem dæmi, Danish Crown, sem flestir þekkja, að það tæki þá fimm daga að slátra öllu því nautakjöti sem fellur til hér á landi meðan við erum að dunda við það allt árið með 30% nýtingu á afurðastöð. Það sér hver maður að við þurfum að breyta til og horfa til þeirra breytinga og mæta þeim áskorunum sem fram undan eru.

Sömuleiðis hefur verið mikill samdráttur í framleiðslu á þessum vörum. Vissulega hafa margar ytri aðstæður í greininni ekki verið hagfelldar og því hafa menn ekki séð sér hag í því að stunda þessa framleiðslu áfram, og auðvitað eru neysluvenjur aðrar. En ég bendi á það, frú forseti, að við erum að neyta hér á landi tiltölulega mikils magns per einstakling af kjötafurðum. Að sjálfsögðu spilar þar inn í allur sá fjöldi sem kemur hingað til lands, þ.e. erlendir ferðamenn, og að auki hefur þjóðinni fjölgað á þessum tíma. En við stöndum samt frammi fyrir þessari spurningu: Hvernig ætlum við að tryggja það að innlend matvælaframleiðsla, þ.e. afurðastöðvar fyrir kjötafurðir, og innlendar kjötafurðir verði áfram á boðstólum?

Eitt skrefið í því er að fara þessa leið og er það í sjálfu sér í takti við margt sem við höfum fjallað um undanfarin löggjafarþing. Til dæmis samþykktum við á síðasta þingi, 1. júní 2023, tillögu til þingsályktunar um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Í henni er sérstaklega getið og tekið fram að tryggt verði með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndunum þar sem starfað er samkvæmt EES-löggjöfinni. Oft hefur því verið haldið fram í umræðunni að við séum að fara á svig við þá samninga sem við heyrum undir hvað varðar EES-samninginn. En ég vil bara minna á það, frú forseti, að mikið svigrúm er innan löggjafarinnar þegar kemur að landbúnaðarframleiðslu, hvort sem það er hér á landi eða í öðrum Evrópuríkjum, hvort sem menn eru utan Evrópusambandsins eða innan þess. Það er gjörólíkt milli ríkja hvernig menn haga sínum stuðningi. Víðtækar heimildir eru í hverju landi fyrir sig um hvernig staðinn er vörður um og hvernig menn sjá fyrir sér starfsskilyrði sem framleiðslunni eru sett hverju sinni. Markmið þessarar lagasetningar er fyrst og fremst að styðja við endurskipulagningu og hagræðingu í slátrun og kjötvinnslu, sömuleiðis að fylgt sé eftir þeim markmiðum búvörulaga að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara, til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur. Það er línan sem við getum horft á þegar við förum að ræða þessi mál af ákveðinni dýpt. Við ætlum að standa vörð um hagsmuni neytenda og er það lykilatriði í þessu.

Líka þarf að horfa til þess þegar ákveðin heimild er gefin að frumframleiðandinn, bóndinn, hafi sömuleiðis ákveðna tryggingu fyrir því að geta átt viðskipti, hvort sem er við þennan aðila eða einhvern aðila sem stendur utan samstarfsins, og við þurfum líka að horfa til þess að ýtt sé undir þá framleiðslu, t.d. eins og beint frá býli. Þá þarf að setja ákveðnar skorður og hafa belti og axlabönd á því að frumframleiðandinn sem fær viðkomandi aðila, sem hefur undirgengist þessa heimild, til að slátra fyrir sig fái vöruna til sín á því verði sem viðkomandi sláturhús selur inn í sína eigin vinnslu. Þannig er þetta nú gert.

Margar skýrslur hafa verið ritaðar þar sem farið hefur verið í ákveðna greiningu og ætla ég, með leyfi forseta, að vitna í skýrslu sem Deloitte vann árið 2021 um fjárhagslega greiningu á stöðu og möguleikum til hagræðingar í rekstri innlendra sláturleyfishafa í slátrun og kjötvinnslu stórgripa og sauðfjár. Þessi skýrsla var unnin að beiðni atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins sem þá var. Sú greining leiddi í ljós að umtalsverður ávinningur gæti hlotist af þeirri hagræðingu og sömuleiðis ef farið væri í endurskipulagningu innan greinarinnar. Er metið samkvæmt þessu, árið 2021, að rekstrarhagræði við þessa samþjöppun afurðastöðva geti numið 1–1,5 milljörðum. Mér finnst þessi tala varlega áætluð, frú forseti. Hví segi ég það? Jú, ég þekki ágætlega til sameiningar sem varð norður í landi milli fyrirtækjanna Kjarnafæðis og Norðlenska. Við erum svo sem að tala um allt aðra stærðargráðu í því samhengi. Ávinningurinn af þeirri sameiningu fyrir hið sameinaða fyrirtæki hefur verið mun hraðari en menn héldu. Hægt var að hagræða alveg óskaplega. Tvær afurðastöðvar voru hvor sínum megin Eyjafjarðar, önnur á Akureyri og hin á Svalbarðsströnd, og verið var að reka sláturhús á Blönduósi og Húsavík. Þessi fyrirtæki voru að gera það sama. Vörunúmerin voru rétt um 700, í pínulitlum vinnslum á evrópskan mælikvarða. Það segir sig sjálft og liggur í hlutarins eðli að þegar farið er í greiningu á þessu eru mikil tækifæri til staðar.

Margir kunna að spyrja sig: Hvar var byrjað að fækka fólkinu? Var byrjað að fækka fólkinu sem er á gólfinu og vinnur myrkranna á milli? Nei, það var ekki gert. Það var farið í yfirstjórnina og byrjað að ofan; söludeildin, bókhaldið og allir þeir stjórar sem þarna voru. Það var bara farið í ákveðna fækkun. Sömuleiðis var farið í það hvernig rými voru nýtt og annað. Að sjá þær tölur sem þetta skilaði hefur haft verulega góð áhrif á fyrirtæki sem bæði voru því sem næst á hausnum. Við vitum það, frú forseti, að til lengdar verða ekki reknar afurðastöðvar hér á landi í miklum mínus því að það bitnar yfirleitt á þeim sem neðstur er í keðjunni, þ.e. frumframleiðandanum. Það þekkjum við vel í gegnum tíðina og sem betur fer hefur orðið ákveðinn viðsnúningur hvað þetta varðar. T.d. er talið, ef við horfum til sauðfjárins eins og staðan er í dag, að ef við færum þessa leið sem frumvarpið gerir ráð fyrir gætum við horft til þess að afurðaverð til bænda myndi hækka um 10–15% að lágmarki. Ég er ekki með tölur þess efnis hvaða áhrif þetta hefði á nautakjötsmarkaðinn en varlega áætlað myndi ég skjóta á að hægt væri að tala um álíka tölur í því samhengi.

Það er svo margt sem segir okkur, sem höfum komið að þessum geira undanfarin ár — eins og ég tók fram, frú forseti, er þetta í fimmta eða sjötta skipti sem ég tala fyrir þessu hér á hinu háa Alþingi og á væntanlega eftir að gera það áfram með mál matvælaráðherra sem við erum með til vinnslu innan hv. atvinnuveganefndar — eftir að hafa fylgst með þessari þróun og þeim tölum sem eru í þessu öllu saman, að ávinningurinn er ótvíræður, bæði fyrir bændur og neytendur.

Nú ætla ég að færa mig, frú forseti, yfir Atlantsála og til Evrópu. Ekki hefur farið fram hjá neinum sá fréttaflutningur sem við höfum fengið þaðan af bændum í mótmælum í Frakklandi og Þýskalandi. Hverju eru þeir að mótmæla? Jú, þeir eru að mótmæla því að kjör þeirra, umgjörð og starfsskilyrði eru ekki í lagi. Þrátt fyrir það hafa þeir ákveðnar heimildir og þar eru þeir að sjálfsögðu að vinna á markaði sem er gjörólíkur okkar hvað það varðar og búa í sjálfu sér við allt önnur skilyrði hvað ræktun varðar. En það segir okkur líka hversu mikilvægt það er að við stöndum með innlendri matvælaframleiðslu, því að við getum ekki alltaf stólað á það að fá hingað góð og fersk matvæli frá Evrópu. Ég sá viðtal við ágætan eplabónda, ég held það hafi verið í Frakklandi, sem sturtaði heilum gám eða hlassi á götuna af eplum og sagðist ekki geta þetta lengur. Hann gæti alveg eins borið þetta á götuna fyrir framan þinghúsið í París eins og að henda þessu heima hjá sér. Og af hverju var hann að henda þessu? Jú, það flæddi inn til hans ódýrari vara frá öðrum löndum. Væntanlega í því landi sem þarna um ræðir, Frakklandi, kom ódýrari sambærileg vara frá Spáni. Bændurnir þar fluttu sínar vörur til Frakklands, þar sem var aðeins skárra verð en heima, vegna þess að þeir fóru halloka í samkeppni við sambærilegar vörur sem framleiddar voru í Afríku.

Svona er nú þessi heimur sem við lifum í. Það er ákveðin hreyfing á matvælum og við getum aldrei verið örugg um það að við getum alltaf gengið út í búð í hvert einasta skipti sem okkur langar til þess og fengið það sem við viljum, vegna þess að sá heimur sem við lifum í í dag, og þarf ekki að fjölyrða um það í þessum ræðustól, er margbreytilegur. Það eru viðsjárverðir tímar mjög víða, því miður. Það eru stríð og alls konar vá sem stendur fyrir dyrum erlendis. Við þurfum að taka það alvarlega.

Og hvað kemur það því við að hér sé verið að fjalla um frumvarp þar sem verið er að tala um undanþágu á ákveðinni grein, 71. gr. búvörulaga? Í þessu frumvarpi er talað um 71. gr. A búvörulaga, því að við getum ekki horft til þess að vera með sömu undanþágur og eru í mjólkinni. Innan 71. gr. hvað það varðar erum við að tala um opinbera verðlagningu á vörunni. Við erum ekki að tala um það í þessu tilfelli því að þar er ákveðinn ómöguleiki fyrir hendi hvað varðar kjötafurðir, með öllum þeim vörunúmerum og þeim fjölda sem þar er. Innan mjólkurframleiðslunnar er ákveðin verðstýring á opinberri verðlagningu á þremur afurðum. Í kjötinu er á ákveðinn hátt óframkvæmanlegt að fara þá leið og því er nú þessi leið farin, að tala um 71. gr. A.

Hún hljóðar svo:

„Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara. Leggja skal upplýsingar um slíka samninga og samstarf fyrir ráðherra til upplýsingar.“

Tiltölulega einfaldur texti hvað lögin varðar en málið er í grunninn flókið. Horfa þarf til margs þegar svona vegferð er farin. Vissulega höfum við dæmi um það hvernig þetta hefur gengið hér á landi varðandi mjólkuriðnaðinn. Ljóst er að þar hefur að mörgu leyti gengið vel. Ef við förum t.d. í hagræðingu þá er talað um 2–3 milljarða sem hún hefur skilað. Síðan má nefna að kjötiðnaðurinn hefur algerlega setið eftir í því sem snýr að nýsköpun og vöruþróun. Við þekkjum það í mjólkinni að nýtingu á afurðinni hefur farið mikið fram. Það er eiginlega ekkert sem fer til spillis og eiginlega allt nýtt sem hægt er úr mjólkinni hverju sinni. Meira að segja eru menn farnir að brugga vínanda. Kemur svo sem ekki á óvart að það sé gert í Skagafirði þar sem menn hafa hingað til verið glaðir og séð tækifæri í ýmsu. Þetta er nú meira í gamni sagt en aftur á móti er aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig menn hafa staðið sig þar í vöruþróun og nýsköpun á afurðum. Það eru gríðarleg tækifæri í að gera betur í vöruþróun og nýsköpun þegar kemur að úrvinnslu kjötafurða. Það er alveg ljóst að fyrir þau fyrirtæki og afurðastöðvar sem eru í þessum rekstri í dag er það verulega erfitt, vegna þess að til þess að geta eytt fjármunum í nýsköpun og vöruþróun þarftu að vera með góðan rekstur og hafa fjármuni til þess. Eins og staðan er í dag eru þeir peningar bara ekki til staðar.

Þegar þessi frumvörp hafa verið rædd í þessum dúr, eins og gert er í dag, hafa borist umsagnir og athugasemdir vegna þessa máls. Sitt sýnist hverjum og er það alveg eðlilegt. Reglulega hefur verið bent á að það séu heimildir innan þeirra samkeppnislaga sem við höfum í dag til að vinna saman og sameina afurðastöðvar. Það er vissulega alveg hárrétt. Fyrr í ræðu minni kom ég að því að fyrirtæki fyrir norðan, Kjarnafæði og Norðlenska, hefðu verið sameinuð og tók sú sameining töluvert langan tíma. Seinasta lotan tók um tvö ár og búið var að taka nokkra snúninga áður. Þá var þetta gert á grunni 10. og 12. gr. samkeppnislaga. Þetta var verulega kostnaðarsamt og þungt í vöfum. Sömuleiðis hefur verið bent á að í 15. gr. samkeppnislaga er að finna heimild til samstarfs fyrirtækja að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þó er talið svo að umrætt ákvæði 15. gr. veiti ekki nægilegt svigrúm til samstarfs í takti við það sem ég hef áður farið inn á, m.a. þar sem ekki er heimilt að taka tillit til hagsmuna framleiðenda, og því er þörf á að fara þessa leið sem ég er að tala um hér. Það þarf að veita ákveðna undanþágu til að ná þeim takmörkunum sem um er rætt. Ég á frekar von á því að það verði töluvert margar skoðanir á því hvað sé hægt að gera innan þess ramma sem samkeppnislögin bjóða upp á, en við þekkjum ákveðna leið sem hefur verið farin í mjólkinni og sömuleiðis þá leið sem Kjarnafæði og Norðlenska fóru.

Ég segi óhikað, frú forseti, að það sem ég er að fjalla um hér og sömuleiðis það sem við erum að fjalla um í atvinnuveganefnd er einfaldari leið. Hún er skýrari en vissulega verðum við að hafa í huga að við getum ekki farið hana öðruvísi en að setja ákveðnar skorður um það og að þeim fyrirtækjum sem kjósa að ganga þennan veg verði settar ákveðnar skorður og leikreglur sem menn þurfa að spila eftir.

Í nágrannaríkjunum er farið misjafnlega að hlutunum. Við getum horft til Svíþjóðar og Finnlands. Talað hefur verið um finnsku leiðina í samhengi við þá leið sem fjallað er um í frumvarpi hæstv. matvælaráðherra, það sem snýr að frumframleiðendafélögum. Vissulega er það að mörgu leyti góð og skynsöm leið en því miður hentar hún ekki almennilega hér á landi ef við förum í skilgreiningu á því hvað frumframleiðandi er. Við þurfum að skilgreina það upp á nýtt vegna þess að ramminn þar er mjög þröngur, en í Finnlandi er löng hefð fyrir því. Allt frá 1930 voru stofnuð þar ákveðin frumframleiðendafélög sem enn eru við lýði í dag og njóta ákveðinnar undanþágu.

Frú forseti. Ég legg þetta frumvarp fram og þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að flytja það. Sömuleiðis vil ég minna á að við erum að vinna ákveðið mál hliðstætt og er það sérstök tilviljun að þetta komi á dagskrá, en mér fannst ómögulegt annað en við tækjum umræðuna fyrst þetta mál komst á dagskrá. Þetta er vissulega bara þingmannamál en ég held að umræðan sé þörf og hún er æskileg fyrir alla þá sem koma hér að.