154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Svarið við spurningu hv. þingmanns er í stuttu máli á þann veg að það er ákveðið — og nú vil ég segja það með fyrirvara, frú forseti, að það er ekki alveg víst að ég fari 100% með rétt mál, bara svo það sé sagt. Eins og ég man þetta þá var það þannig að við erum með ákveðna hlutdeild í hverri kjöttegund fyrir sig og við vorum á mörkunum með að fara yfir 50% -markið með samruna á þessum tveimur félögum. Ef samruninn hefði t.d. falið í sér að við værum að fara upp í 60–70% þá hefði þessi samruni sennilega ekki átt sér stað. Þar liggur þetta. En ég ítreka það, frú forseti, að ég skal að éta þetta ofan í mig ef ég hef rangt fyrir mér. En þetta er það sem mig minnir að hafi verið aðalmálið í þessu. Sömuleiðis snýr þetta svona varðandi nautakjötið en í svíninu er því öðruvísi farið hvað það varðar. En fyrst og fremst er það þannig að það fer eftir því hversu stór hlutdeild þín er í hverri kjöttegund fyrir sig. Það er stóra málið í þessu.