154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:29]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem fer hér fram um íslenskan landbúnað og þessa tillögu. Eins og komið hefur fram hér í umræðunum þá er íslenskur landbúnaður atvinnugrein í kreppu og það má kannski segja að þetta frumvarp sé ein birtingarmynd þess. Við verðum ítrekað vitni að því að bændur sendi frá sér neyðarkall vegna þess að tekjur þeirra eru með þeim hætti að það er spurning hvers vegna þeir eru að standa í þessu yfir höfuð. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það þurfi eitthvað að breytast í umgjörðinni utan um íslenskan landbúnað. Það er eitthvað mjög brogað þar á ferðinni. Hér er framleidd fyrsta flokks vara og þá er ég kannski helst að tala um lambakjötið. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns hér áðan, Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, er þetta ákaflega umhverfisvæn framleiðsla að mörgu leyti, sjálfbær og flott. Það er auðvitað ekki hægt að alhæfa um alla íslenska landbúnaðarframleiðslu eða allar íslenskar landbúnaðarafurðir án þess að ég ætli að fara að tína eitthvað til. En það er hins vegar klárt að lambakjötið er auðvitað krúnudjásnið í krónu íslensks landbúnaðar og þessarar atvinnugreinar.

Það er annað sem ekki má gleymast þegar fjallað er um landbúnað og það er að landbúnaður er menningarstarfsemi, herra forseti, ef ég má nota það orð. Ég veit að það er kannski ekki hárnákvæmt en landbúnaður er einfaldlega menningarlega mikilvæg starfsemi í samfélögum eins og okkar sem hafa grundvallast á landbúnaði og væru ekki til nema fyrir þá ágætu atvinnugrein.

Fæðuöryggi er orð sem heyrist auðvitað oft í umræðum um landbúnað og landbúnaðarafurðir en ég geri nú ráð fyrir því að við munum fá tækifæri til að ræða þann þátt þessarar starfsemi betur hér á eftir þegar kemur að umræðu um frumvarp hv. þm. Þórarins Inga Péturssonar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

Það er annað sem oft er í umræðunni og í deiglunni þegar rætt er um landbúnaðinn en það eru erfiðleikar við endurnýjun stéttarinnar. Við vitum það að bændur eru að meðaltali orðnir tiltölulega fullorðnir, sennilega komnir á minn aldur flestir svona miðað við það sem kemur fram í tölum. Ef til er einhver meðaltalsbóndi þá væri hann á aldur við okkur hv. þm. Þórarin Inga Pétursson. Við höfum fjallað um það líka í atvinnuveganefnd og það er auðvitað spennandi viðfangsefni eða áhugavert viðfangsefni, skulum við segja, hvernig hægt er að stuðla betur að endurnýjun í landbúnaði. Ég held að það hljóti að vera einhver sóknarfæri þar og þá í umgjörðinni utan um þessa ágætu atvinnugrein.

Hv. þingmaður nefndi það hér í framsögu sinni fyrir þessu máli að samkeppnin er nú þegar til staðar. Íslenskur landbúnaður er þegar í samkeppni við innfluttar vörur og það hefur komið fram í máli annarra hv. þingmanna hér líka þannig að þetta frumvarp er auðvitað liður í því að takast á við þá stöðu og sýni ég því fullan skilning. En það er ljóst að sumar búgreinar okkar myndu eiga erfitt með eða eiga erfiðara með þessa samkeppni við innfluttu vöruna, eiga erfitt með að keppa í verðum, skulum við segja. En önnur vara sem framleidd er á þessu landi keppir klárlega í gæðum eins og komið hefur fram líka ítrekað, bæði í minni ræðu og ræðum annarra hv. þingmanna. Önnur vara er einhvers konar dagvara sem er ekki í mikilli hættu gagnvart erlendri samkeppni.

En ég kem hingað upp, hæstv. forseti, til þess að tæpa á því, sem er a.m.k. skoðun þess sem hér stendur, að það þurfi að stokka upp þessa grein með einhverjum hætti. Ég er líka talsmaður þess að íslenskir bændur taki alvöruumræðu um hvað myndi gerast ef Ísland gengi í Evrópusambandið og tæki þátt í landbúnaðarstefnu sambandsins. Það hefur verið nefnt hér áður í þessum umræðum. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á það áðan og fleiri og því var aðeins kastað hérna á milli. En væri það í rauninni alslæmt fyrir íslenskan landbúnað?

Herra forseti. Ég man eftir skýrslu sem kom út þegar Ísland var í umsóknarferlinu við Evrópusambandið í kjölfar umsóknarinnar árið 2009, skýrsla sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir íslensk stjórnvöld. Hún skoðaði og kafaði mjög djúpt ofan í stöðu íslensks landbúnaðar í tengslum við þessa umsókn og evrópsku landbúnaðarstefnuna. Þar kom fram að það væri auðvitað talsvert misjafnt hvernig greinum íslensks landbúnaðar myndi reiða af innan hennar. En ég man það líka að það var skoðun stofnunarinnar á þeim tíma að íslensk lambakjötsframleiðsla ætti að öllum líkindum ágætisframtíð innan Evrópusambandsins. Verksmiðjuframleiðslan svokallaða myndi væntanlega tapa en sauðfjárræktin gæti hugsanlega eflst og ekki síst vegna þess að hún er, eins og hefur komið fram hér, sjálfbær umhverfisvæn framleiðsla sem aukin eftirspurn er eftir í Evrópusambandinu. Við sjáum að hluti af þeim mótmælum sem fara fram þessa dagana í löndum Evrópusambandsins sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun tækla núna á fundi sínum sem er yfirvofandi, snýr að þessum umhverfiskröfum, auknu umhverfiskröfum sem við uppfyllum að miklu leyti og þyrftum ekki að óttast að væri okkur óhagfelldar ef við værum inni í landbúnaðarstefnu sambandsins. Þess ber að geta að Evrópusambandið snýst að stórum hluta um landbúnað og stærstur hluti útgjalda þess fyrirbæris er í tengslum við sameiginlegu landbúnaðarstefnuna, CAP, eins og hún er skammstöfuð, Common Agricultural Policy, eins og það er á enskunni. Ég hvet íslenska bændur til að skoða hvort það séu ekki tækifæri í þessari miklu áherslu sambandsins á landbúnað.

Hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson talaði um stöðuna í Evrópusambandinu hérna áðan og nefndi m.a. eplabóndann í Frakklandi. Ég hef frekar takmarkaða trú á að við munum þurfa að standa í samkeppni við spænska eplaframleiðendur. En við erum samt með vöru sem ég held að eigi fullt erindi inn á evrópskan markað og gæti staðið þar keik.

Sameiginlega landbúnaðarstefnan var sett á fót árið 1962 af þeim ríkjum sem þá voru í þessu fyrirbæri sem var að þróast yfir í það að verða Evrópubandalagið sem síðan varð að Evrópusambandinu. Hún er svona í grunninn, með leyfi forseta, að styðja bændur og bæta landbúnaðarframleiðslu í Evrópusambandinu, að tryggja stöðugt framboð af mat á viðráðanlegu verði, að standa vörð um tekjur evrópskra bænda, að tækla loftslagsbreytingar og sjálfbæra stýringu náttúruauðlinda, að standa vörð um sveitir og landslag í sveitum Evrópu, halda efnahag sveitanna gangandi með störfum í landbúnaði og tengdum geirum. Þetta er auðvitað gert með sértækum aðgerðum og beingreiðslum til bænda þar sem stutt er við umhverfisvænan landbúnað. Sambandið tekur líka á erfiðum aðstæðum sem geta skapast á markaði, t.d. þegar verða aðfangakeðjuerfiðleikar eða annað slíkt. Stefnan er að styðja við bakið á hinum dreifðu byggðum með aðildarríkjunum og taka á þeim áskorunum sem eru til staðar í landsbyggðunum. Við þetta bætist auðvitað að ef Ísland væri innan Evrópusambandsins, herra forseti, þá eru góðar líkur á því að allur íslenskur landbúnaður yrði skilgreindur sem heimskautalandbúnaður og nyti þar af leiðandi sérstaks skjóls í krafti þess, eins og hluti landbúnaðar Finnlands nýtur og Svíþjóðar líka, en allt landið er norðan þeirrar breiddargráðu sem skilgreinir þennan heimskautalandbúnað. Er þetta ekki ágætisstefna, herra forseti? Ég bara spyr.