154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:44]
Horfa

Magnús Árni Skjöld Magnússon (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa spennandi spurningu og gæti reyndar haldið 40 mínútna fyrirlestur um hana ef eftirspurn væri eftir því og tími væri til. Evrópusambandið er auðvitað tollabandalag en það er meira en það, það er líka samband utan um alls konar aðra hluti. Þessi spurning snertir auðvitað á risastóru máli sem snertir ekki bara Evrópusambandið heldur Vesturlönd öll og okkur þar á meðal og snýst um það hvaða vörur við viljum fá inn á markaði okkar frá löndum þar sem hægt er að framleiða þær með mun ódýrari hætti en hér. Það hefur stundum verið talað um að það gæti verið að besta þróunaraðstoðin, ef ég má nota það orð, sem hægt væri að veita, að veita markaðsaðgang. Þetta er því bara allt önnur spurning heldur en evrópska landbúnaðarstefnan sem snýst um það að standa vörð um evrópskan landbúnað. Evrópusambandið myndi auðvitað að standa vörð um íslenskan landbúnað ef við værum hluti af því bandalagi. En það er rétt að hugsanlega mætti skoða það að flytja inn vörur frá Afríku og öðrum svæðum sem eru efnahagslega undirskipuð og styrkja með því undirstöður í þeim löndum, en ég held að við myndum seint flytja inn íslenskt lambakjöt frá Simbabve.