154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[17:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er hægt að svara með mismunandi hætti. Í sjálfu sér eru bara allir að passa upp á sitt fæðuöryggi í dag, hvert sem litið er. Góð og holl matvæli er það sem þetta er farið að snúast ansi mikið um. Við sjáum það líka tengt Úkraínu og útflutningi þeirra inn í Evrópusambandsríkin. Hv. þingmaður þekkir þá umræðu og hvernig brugðist var við víða sem snýr nákvæmlega að því sama og ég tók dæmi um með Afríku og hvernig Afríkuráðið er að ræða þessi mál sem snúa að Evrópuráðinu.

Þá spyr ég hv. þingmann: Er ekki bara eðlilegt, eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu, að hér sé unnið eftir svipuðu skapalóni og er gert innan Evrópusambandsins sem snýr að nákvæmlega því sem ég rakti hér, afurðastöðvum? Er það ekki bara hin eðlilegasta leið í sjálfu sér þegar við erum með svona örsmátt ríki í samanburði? Því var nú ekki hvíslað í eyra mér, ég hlustaði bara á hv. þingmann sem mælti hér fyrir þingsályktunartillögunni, að Danish Crown í Danmörku gæti slátrað öllum nautgripum á Íslandi á fimm dögum. Þetta á náttúrlega við um fleiri flokka. Það er enn ýktara dæmi, held ég, í svínaræktinni. Það eru enn þá færri dagar, tveir, þrír dagar. Er ekki bara eðlilegt að við séum með svipaðar leikreglur og gerast innan Evrópusambandsins, eins og er raunverulega verið að gefa boltann upp gagnvart í þessu máli. En ég ítreka að innan NATO-þingsins er gríðarleg umræða um fæðuöryggi. Það kom mér bara gríðarlega óvart í Þýskalandi í september að þeir töluðu varla um annað í þýska þinginu og sérfræðingar vítt og breitt um landið sem við heimsóttum, þeir tala um alla málaflokka og hvað sem er en þetta var alltaf sama umræðuefnið: Orka og fæði.