154. löggjafarþing — 62. fundur,  31. jan. 2024.

búvörulög.

33. mál
[18:05]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Takk fyrir andsvarið, hv. þingmaður. Ég ræddi hér í fjáraukanum í 20 mínútur — eða hvort það var bara í fjárlögunum, í annarri ræðunni þar — um landbúnaðinn þannig að ég held að þar liggi gullkornin kannski í þessu samhengi hluta.

Jú, ég held að þetta sé atvinnugrein í kreppu og búin að vera lengi, eins og ég kom inn á í máli mínu áðan. Þess vegna þurfum við svona mál. Við þurfum fleiri svona mál. Síðan taldi ég upp í ræðu minni nokkra punkta. Við þurfum að leita allra hagræðingarmöguleika sem við getum. Í þessu máli hangir ávöxturinn tiltölulega lágt, held ég, á ávaxtatrénu. Ég held að flestir hljóti að skilja eðli þess í þessu litla landi okkar að við þurfum að finna að það sé stöðug hagræðing í gangi.

Ég kom inn á tæknina. Það sem er búið að gerast í sjávarútveginum á síðustu 30 árum er að á fiskvinnsluborðinu fóru 10 kíló í gegn hjá hverri manneskju sem vann við að snyrta fiskinn á borðinu en mér skilst að í okkar öflugustu húsum í dag í fiskvinnslunni séu þetta 180 kíló. Ég er ekki að fara fram á að það átjánfaldist, eða hvað það er, í lambakjötinu, að öll þessi afköst vaxi svo gríðarlega, en við þurfum líka að geta innleitt tækninýjungar þar. En á meðan greinin á í þessum fjárhagslega vanda jafn mikið og er núna og er alltaf að skrimta þá er erfitt að ná þangað, eins og kom fram í mínu máli áðan.

Já, ég tek undir það og ég hef líka lýst því, ég hef síðustu tvö ár tekið þessa ræðu hér, þetta er bara erfitt ástand sem er búið að vera hérna; Covid og síðan stríðið í framhaldinu, fjármagnskostnaður fer upp, aðfangakeðjur rofnuðu. Í íslenskum mjólkuriðnaði hugsa ég að undanfarin tvö ár séu versta tímabil sem verið hefur í mjólkinni hjá kúabændum í sirka 30, 40 ár. Ég man ekki lengra.